Kjúklingatacos Evu Laufeyjar

Ljósmynd/Eva Laufey

Það er sumt í þessu lífi sem er svo einfalt að það þarf ekki einu sinni að velta því fyrir sér. Eins og þegar Eva Laufey deilir uppskrift af kjúklingatacos þá veit maður að það er gott. Flóknara er það ekki. Eva Laufey hefur oft verið kölluð Mexíkódrottningin hér á Matarvefnum enda hefur uppskrift hennar að Mexíkósúpu verið vinsælasta uppskriftin hér á vefnum svo árum skiptir. 

Flóknara er það ekki.

Kjúklingatacos sem bráðnar í munni

Fyrir þrjá – fjóra

 • 4 kjúklingabringur
 • 4 msk. olía
 • 2 tsk. paprikukrydd
 • 2 tsk. malaður kóríander
 • 2 tsk. salt
 • 1 tsk. pipar
 • 2 tsk. cumin
 • 1 msk. rifinn límónubörkur
 • Safi úr hálfri límónu
 • 2 hvítlauksrif
 • 1 laukur
 • Tortillakökur
 • Ferskt mangósalsa
 • Lárperumauk
 • Sýrður rjómi
 • Hreinn fetaostur

Aðferð:

 1. Blandið saman olíu og þeim kryddum sem talin eru upp hér að ofan í skál, rífið niður límónubörk og hvítlauksrif og kreistið safann úr hálfri límónu. Hrærið öllu vel saman.
 2. Leggið kjúklinginn í kryddlögin og nuddið honum í kjúklinginn (gott að geyma í sólarhring ef þið hafið tíma, í ísskáp).
 3. Steikið kjúklinginn í tvær mínútur á hvorri hlið, saxið laukinn og bætið út á pönnuna í lokin og steikið í mínútu eða þar til laukurinn er orðinn mjúkur í gegn.
 4. Ef þið notið pönnu sem þolir að fara inn í ofn þá er sniðugt að nota hana en annars færið þið réttinn yfir í eldfast mót og bætið 2 dl af vatni saman við, gildir einnig um ef þið notið pönnu.
 5. Setjið réttinn inn í ofn við 200°C í 25 mínútur.
 6. Rífið kjúklinginn niður og veltið kjúklingakjötinu upp úr soðinu sem er á pönnunni eða í eldfasta mótinu.
 7. Berið kjúklinginn fram í tortilla kökum með sýrðum rjóma, fersku lárperumauki, salsa og hreinum fetaosti.

Á meðan kjúklingurinn er í ofninum er tilvalið að útbúa einfalt lárperumauk og ferskt salsa.

Ferskt salsa

 • 1 laukur
 • 12-14 kirsuberjatómatar eða tveir stórir
 • 1 mangó
 • 2 stilkar vorlaukur
 • Safinn úr hálfri límónu
 • Salt og pipar
 • Góð olífuolía

Aðferð:

 1. Skerið hráefnin mjög smátt og blandið saman í skál, kryddið til með salti og pipar.
 2. Kreistið safann úr hálfri límónu yfir og hellið svolítið af ólífuolíu yfir eða um það bil matskeið. Geymið í kæli áður en þið berið fram.

Lárperumauk

 • 4 lárperur (mjúkar)
 • 1 hvítlauksrif
 • Handfylli kóríander
 • ¼ rautt chili
 • ½ rauðlaukur
 • Safinn úr hálfri límónu
 • Salt og pipar

Aðferð:

 1. Setjið öll hráefnin í matvinnsluvél eða maukið með töfrasprota þar til maukið er silkimjúkt. Smakkið ykkur til með salti og pipar.
 2. Berið strax fram og njótið.
Ljósmynd/Eva Laufey
mbl.is