Taco-veisla sem þú vilt alls ekki missa af

Algjörlega geggjuð taco-veisla í boði Hildar Rutar.
Algjörlega geggjuð taco-veisla í boði Hildar Rutar. mbl.is/Hildur Rut Ingimarsdóttir

Það jafnast fátt á við gott taco, en þessi veisla er með þeim girnilegri sem við höfum smakkað. Uppskriftin kemur úr smiðju Hildar Rutar sem er nýr penni á Trendnet, og deildi þessari uppskrift þar nú á dögunum.

Í uppskriftinni eru risarækjur djúpsteiktar í tempura-deigi sem er einfaldara í framreiðslu en við höldum, ásamt sriracha-majónesi og fersku salati. Gjörið svo vel!

Taco-veisla sem þú vilt alls ekki missa af (fyrir tvo, 3 taco á mann)

  • 6 litlar tortillur, soft taco (ég nota frá Santa maria sem fæst í Hagkaup)
  • 18 risarækjur, hráar
  • 1-2 hvítlauksrif, pressuð
  • Chili-flögur
  • Salt og pipar
  • 1-2 msk. ólífuolía
  • Olía til djúpsteikingar

Tempura-deig

  • 130 g hveiti + smá auka
  • ¼ tsk. matarsódi
  • 1 eggjarauða
  • 220 ml sódavatn, mjög kalt

Kínakálsalat

  • Kínakál, 4 blöð
  • 2 tómatar
  • 2-3 msk. rauðlaukur
  • ½-1 rautt chili
  • 1-2 avókadó
  • Safi úr ½ lime
  • Salt og pipar

Sriracha-sósa

  • 4 msk. majónes (t.d. Hellmanns)
  • 1 tsk. sriracha-sósa
  • 1-2 msk. ferskur kóríander, smátt saxað
  • Safi úr ½ lime

Toppa með ferskum kóríander, eftir smekk

Aðferð:

  1. Blandið saman í skál risarækjum, ólífuolíu, hvítlauksrifi, chili flögum, salti og pipar.
  2. Því næst gerið þið tempura-deigið. Blandið saman hveiti og matarsóda í skál. Hrærið saman eggjarauðu og sódavatni og blandið saman við hveitiblönduna. Saltið og piprið eftir smekk. Haldið tempura-blöndunni kaldri því þá verður deigið stökkara og betra.
  3. Hellið olíu í rúmgóðan pott þannig að olían þeki risarækjurnar. Hitið olíuna. Gott ráð er að dýfa tréskafti ofan í, t.d. á trésleikju, og ef það sýður (bubblar) þá er olían tilbúin.
  4. Hellið hveiti á disk og veltið risarækjunum upp úr því. Að því loknu veltið þeim upp úr tempura-deiginu og steikið upp úr olíunni þar til rækjurnar eru orðnar gylltar og stökkar. Gott er að nota stáltangir í þetta verk. Það tekur í kringum 2 mínútur að fullelda rækjurnar.
  5. Steikið tortillurnar upp úr smá olíu og fyllið þær með salatinu, risarækjunum, sósunni og toppið svo með kóríander.

Kínakálsalat

  1. Skerið kínakál, tómata, rauðlauk, avókadó og chili smátt. Kreistið safa úr lime og saltið og piprið. Blandið öllu vel saman.

Sriracha-sósa

  1. Blandið saman majónesi, sriracha-sósu, kóríander og safa úr lime.
Risarækjur og sriracha-sósa eru sprengja fyrir bragðlaukana.
Risarækjur og sriracha-sósa eru sprengja fyrir bragðlaukana. mbl.is/Hildur Rut Ingimarsdóttir
mbl.is/Hildur Rut Ingimarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert