Íslensk byggmjólk komin á markað

Ljósmynd/Kaja Organics

Í dag kemur á markað undir vörumerki Kaju ný íslensk lífrænt vottuð byggmjólk unnin úr byggi frá Vallanesi.

Karen Jónsdóttir, konan á bak við Kaju, segir að byggmjólkin eigi sér töluverðan aðdraganda. „Fyrir tveimur árum fékk ég styrk frá Uppbyggingarsjóði Vesturlands til þróunar á íslenskri jurtamjólk en hún hefur ekki verið framleidd hérlendis áður. Þetta er því fyrsta íslenska jurtamjólkin og telst það stór áfangi fyrir lítinn frumkvöðul að ná þessu.“

Til að byrja með verður byggjólkin einungis fáanleg í takmörkuðu upplagi þar sem framleiðslubúnaðurinn býður ekki upp á meira en unnið er að því að auka afköst. Byggmjólkin er í glerflöskum til að halda hreinleika íslensku framleiðslunar auk þess sem hún er ósíuð en það er gert til að halda í hollustu byggsins. Bygg hefur hátt hlutfall beta-glúkana sem meðal annars lækka kólesteról í blóði. Byggið inniheldur einnig andoxunaefni og nýjustu rannsóknir sýna að í byggi eru efni sem styrkja ónæmiskerfið.

Byggið er einnig gott fyrir viðkvæma maga og fyrir starfsemi ristilsins. Þar sem íslenska byggið er svo kröftugt þarf helmingi minna af því í framleiðsluna en því evrópska sem aftur leiðir til þess að byggmjólkin telst LKL eða lágkolvetna. Innihald kolvetnis er einungis 4,8 g pr/100 g.

Á síðasta ári voru fluttar inn tæpar 1,5 milljónir lítra af erlendri jurtamjólk þannig að íslenska byggmjólkin verður kærkomin viðbót.

Hin íslenska byggmjólk fæst nú í Hagkaup Garðabæ, Kringlunni, Skeifunni og Smáralind, Melabúðinni og Matarbúri Kaju Akranesi.

Karen Jónsdóttir er konan á bak við Kaju og nýju …
Karen Jónsdóttir er konan á bak við Kaju og nýju íslensku byggmjólkina. Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert