Ómótstæðilegir kanilsnúðar með fyllingu

Unaðslegir kanilsnúðar með mjúkri marsípanfyllingu.
Unaðslegir kanilsnúðar með mjúkri marsípanfyllingu. mbl.is/Colourbox

Við sleppum ekki gómsætri snúðauppskrift úr hendi. Þessir kanilsnúðar eru hreint út sagt ómótstæðilegir með mjúkri marsípanfyllingu.

Ómótstæðilegir kanilsnúðar með fyllingu (12-14 stk)

  • 50 g ger
  • 1 tsk. salt
  • 1 tsk. kanill
  • 125 g sykur
  • 200 g smjör
  • 6 dl mjólk
  • 1 kg hveiti

Fylling:

  • 100 g marsípan
  • 100 g mjúkt smjör
  • 50 g sykur

Skraut:

  • 1 egg
  • 50 g saxaðar möndlur
  • 4 msk. sykur blandað saman við 1 msk kanil

Aðferð:

  1. Smuldrið gerinu í skál. Bætið salti, kanil og sykri út í.
  2. Bræðið smjörið í potti á vægum hita og bætið mjólkinni saman við þar til volg. Hellið þá blöndunni yfir gerið og hrærið það út. Setjið hveitið út í smátt og smátt og hnoðið vel þar til slétt og fínt. Látið deigið hefast undir klút í 30 mínútur.
  3. Fylling: Rífið marsípanið niður í skál og hrærið saman við sykur og smjör þar til það verður að kremi.
  4. Hitið ofninn á 180°C. Rúllið deiginu út í stærðina 50x40 cm. Smyrjið fyllingunni á deigið.
  5. Brjótið 1/3 af deiginu inn að miðju og síðan hinn helminginn yfir fyrsta helminginn. Rúllið deiginu út aftur í 40x40 cm og skerið í 12 strimla, sirka 3 cm breiða. Skerið hvern strimil til helminga og snúið upp á þá saman í hnút. Setjið á bökunarpappír á bökunarplötu.  
  6. Penslið snúðana með pískuðu eggi og stráið söxuðum möndlum og kanilsykri yfir.
  7. Bakið í 12-15 mínútur þar til gylltir á lit.
  8. Látið kólna á rist.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert