Costco hleypir inn í hollum

Viðskiptavinir Costco bíða í röðum eftir að komast inn. Myndin …
Viðskiptavinir Costco bíða í röðum eftir að komast inn. Myndin er tekin við verslun Costco í Farnborough í Bretlandi fyrr í dag. AFP

Forsvarsmenn Costco á Íslandi hafa sent aðildarfólki sínu tilkynningu þar sem farið er yfir öryggis- og hreinlætisráðstafanir sem fyrirtækið er að gera vegna kórónuveirunnar.

Þar kemur meðal annars fram að fjölda verslunarfólks verði stýrt inn í vöruhús og dregið verði úr ýmissi þjónustu án þess að fram komi hver sú þjónusta sé.

Hér að neðan má sjá bréfið í heild sinni:

Kæri Costco-meðlimur,

Nú þegar alþjóðleg áhrif kórónaveirunnar (COVID-19) eru enn að koma fram leggur Costco áherslu á að tryggja heilsu og öryggi meðlima okkar, starfsfólks og samfélagsins í heild. Við fylgjumst grannt með þróun mála og förum að fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda.

Eins og mörg ykkar hafa tekið eftir hafa viðskipti í vöruhúsinu aukist mikið um þessar mundir. Þess vegna höfum við gripið til aðgerða til að stýra fjölda meðlima inni í vöruhúsinu og við förum fram á að meðlimir og starfsfólk haldi tilskilinni fjarlægð. Við höfum einnig dregið úr ýmissi þjónustu.

Við höfum skerpt á vinnureglum varðandi mikilvægi þess að sótthreinsa yfirborð, þar á meðal handföng á innkaupakerrum, vöruhillur og afgreiðslukassa. Takmarkanir hafa verið settar á tilteknar vörur til að tryggja að sem flestir meðlimir hafi aðgang að vörum sem þeir vilja og þurfa á að halda. Innkaupafulltrúar okkar starfa með birgjum til að tryggja framboð í vöruhúsinu á eftirsóttum vörum ásamt daglegum nauðsynjavörum.

Við leggjum áherslu á að halda starfsfólki okkar vel upplýstu til að tryggja skjót og rétt viðbrögð. Á meðan óvissa ríkir um aðstæður og starfsemi okkar er aðlöguð eftir þörfum viljum við þakka þér fyrir þolinmæði þína og samvinnu. Okkur er annt um heilsu meðlima okkar og starfsfólks, og við kappkostum sem fyrr að bjóða gæðavörur á lágu verði og framúrskarandi þjónustu.

Við færum meðlimum og starfsfólki Costco innilegar þakkir fyrir ötulan stuðning og hollustu á þessum krefjandi tímum.

Kærar þakkir,

Craig Jelinek

Forstjóri Costco Wholesale

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert