Gísli Matthías í samkeppni við Eldum rétt!

Gísli Matthías Auðunsson er maðurinn á bak við Eldað heima …
Gísli Matthías Auðunsson er maðurinn á bak við Eldað heima - alvöru veitingahúsamatur sem er tilbúinn til eldunar heima. Eggert Jóhannesson

Einn flinkasti matreiðslumaður landsins, Gísli Matthías Auðunnsson sem alla jafna er kenndur við Slippinn, Skál og að hafa stofnað Mat & Drykk hefur brugðið á það snjalla ráð að setja saman glæsilega matarpakka sem viðskiptavinurinn eldar sjálfur.

„Við ákváðum að loka um leið og fyrsta samkomubannið var sett á því okkur fannst ekki við hæfi að hafa staðinn opinn á Hlemmi þar sem mikið af fólki kemur saman. Hvorki fyrir starfsfólkið okkar né fyrir gestina okkar," segir Gísli um tilurð verkefnisins. Hann segir að eftir að hafa legið undir feldi og leitað leiða til að halda áfram í einhverri mynd til að vernda dýrmæt störf. 

„Við vildum ekki þurfa að segja upp fólkinu okkar og það varð úr að hugmyndin fæddist. Við köllum þetta Skál - ELDAÐ HEIMA! Í matarpökkunum er maturinn sem er á matseðlinum okkar þannig að þú ert að fá SKÁL heim til þín. Allir réttirnir eru þannig að það tekur ekki nema 10-15 mínútur að útbúa þá."

Gísli segir að til að byrja með verði þetta allt réttir sem hafi verið á matseðlinum á Skál! Þar má nefna vinsæla rétti á borð við bleikjuna og síðan nauta skirt steikina en síðan er planið að matseðillinn breytist milli vikna.

„Af þessu tilefni höfum sett upp tölvupóstlista fyrir fréttabréf og vikulega matseðla sem við munum senda út vikulega á meðan þessu stendur. Aðal hugmyndin var að geta haldið uppi góðum gæðum en samt mæta þeim hertu kröfum sem hafa orðið gagnvart veitinga- og þjónustustörfum. Pakkarnir munu verða í tveimur stærðum og verða í boði alla daga vikunnar."

Tvær stærðir verða í boði - sá minni sem er hugsaður fyrir tvo fullorðna og kostar 5.000 krónur og síðan er það fjölskyldupakkinn sem er hugsaður fyrir tvo fullorðna og tvö börn og kostar 7.500 krónur. 

Pakkarnir koma með öllum hráefnum og ætti undirbúningstíminn ekki að vera meiri en 10-15 mínútur. Til viðbótar við matarpakkana er hægt að fá tilbúna kalda rétti aukalega sem og eftirrétti sem hægt væri að bæta við.

„Okkur hlakkar innilega til að bjóða öllum Skál! matinn á ný með bros á vör! Að hluta til fannst okkur þetta skemmtileg hugmynd þar sem margir hafa kannski meiri tíma á höndum sér og þætti gaman að elda einfaldar máltíðir heima. Í raun að fá svona hálf-tilbúnar máltíðir frá okkur og leggja svo sitt loka touch á réttinn og í leiðinni að fara út að borða á Skál! en heima hjá sér," segir Gísli að lokum en hægt er að panta máltíðirnar HÉR.

Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert