Hvað notaði fólk áður en klósettpappír kom til sögunnar?

Hvað er til ráða ef allur klósettpappírinn klárast á landinu?
Hvað er til ráða ef allur klósettpappírinn klárast á landinu? mbl.is/Colourbox

Það var ekki fyrr en á 20. öld sem klósettpappír náði útbreiðslu um heiminn. Og þá grípur okkur stóra spurningin – hvað notaði fólk áður en klósettpappírinn kom til sögunnar? Hvað gerum við ef allur klósettpappírinn klárast? Það er nauðsynlegt að spyrja sig þessarar spurningar í ljósi aðstæðna í heiminum í dag, þar sem fólk hefur farið hamförum að hamstra allan þann pappír sem það kemst yfir.

Fyrstu tilvísanir um að fólk noti klósettpappír ná aftur til 6. aldar e.kr., og þá aðallega á meðal keisara og auðugra í Kína. Notkun klósettpappírs dreifðist að lokum um allt landið og á 14. öld var framleiðsla á salernispappír komin yfir tíu milljónir rúlla eingöngu í Zhejiang-héraði.

Útbreiðsla klósettpappírsins náði þó ekki eins fljótt út í hinn stóra heim. Á 8. öld eru til heimildir frá múslímskum ferðamanni sem átti leið um Kína – en hann vitnar um að Kínverjar séu ekki nægilega þrifalegir þar sem þeir þvoi sér ekki eftir að hafa sinnt þörfum sínum heldur þurrki sér með pappír. En það var fyrst á 20. öld sem klósettpappírinn náði útbreiðslu um allan heim. Hvað notuðu menn og konur þá fram að þeim tíma?

Það var mjög háð svæði, persónulegum vilja og auði hvaða aðferðir fólk notaði. Þeir efnuðu notuðu oft á tíðum hamp, blúndur eða ull en þeir fátæku notuðu árnar og hreinsuðu sig upp úr vatninu eða notuðust við lauf, tuskur, hey, steina, sand, mosa, illgresi, skeljar – eða nokkurn veginn það sem var hendi næst og ókeypis eða ódýrt.

Hjá Rómverjum til forna tíðkaðist að nota svamp sem fastur var við prik og geymdur í saltvatni á milli klósettferða. Grikkir gripu helst í steina og leir til að þurrka sér. En á Indlandi og annars staðar í Mið-Austurlöndum notaði fólk einfaldlega vatn og vinstri höndina sjálfa til að þurrka sér. Höndin var síðan þvegin sérstaklega vel á eftir og ekki notuð til að meðhöndla neinn mat.

Við erum þá kannski ekkert í vondum málum ef klósettpappír fer að verða af skornum skammti því fólk hefur náð að redda sér með ýmis úrræði í gegnum tíðina — sem má þá endurskoða ef til þess kæmi.

- - -

Fylgstu með Matarvefnum á Instagram og Facebook. Endalaus ævintýri, hugmyndir, skemmtilegir leikir og allt það heitasta heita ...

Svo megið þið endilega tagga okkur á Instagram þegar þið eruð að elda eitthvað spennandi @matur.a.mbl

mbl.is/Colourbox
mbl.is