Lifibrauð fjölskyldunnar er í húfi

Berglind Sigmarsdóttir.
Berglind Sigmarsdóttir.

„Þetta eru skrítnir tímar," segir Berglind Sigmarsdóttir, sem á og rekur veitingastaðina GOTT og Pítsugerðina í Vestmannaeyjum. „Maður reynir bara að gera sitt besta í stöðunni. Hér er auðvitað allt í lamasessi og nú er ég með þrjá stráka á aldrinum 9-11 ára heima allan daginn þannig að það er engin lognmolla. Það má því segja að á daginn breytist heimilið í grunnskóla," segir Berglind en lífið í Vestamannaeyjum hefur tekið miklum breytingum undanfarið eins og á landinu öllu.

Lifibrauð fjölskyldunnar eru veitingastaðirnir GOTT og Pítsugerðin og það er áskorun að standa í rekstri sem slíkum á tímum heimsfaraldurs og samkomubanns. Berglind segir að þau hafi gripið á það ráð að einbeita sér að take-away þjónustu og heimsendingum sem hafa mælst vel fyrir. „Þetta hefur gengið vel og við erum að reyna að gera enn betur í þeim efnum. Take-away hefur alltaf verið hluti af okkar þjónustu þannig að við erum vön en það er áhugavert að sjá hvernig reksturinn breytist á tímum sem þessum. Við erum samt óskaplega þakklát fyrir hvað Vestmannaeyingar eru að nýta þennan kost vel."

Nýbúin að taka í notkun nýtt húsnæði

„Við vorum nýbúin að opna nýjan og stærri veitingasal þegar brestur á með heimsfaraldri þannig að skjótt skipast veður í lofti," segir Berglind en þau hjónin voru búin að leggja nótt við dag til að geta opnað nýja veitingarýmið í lok febrúar. Opnunin tókst upp á tíu og það á eftir að muna miklu þegar fram líða stundir að geta tekið við helmingi fleiri gestum í mat - þá ekki síst stórum hópum. Vonandi strax í sumar."

Heimilið breytist í framhaldsskóla á kvöldin

Tvö eldri börn Berglindar eru bæði í framhaldsskóla á meginlandinu en eru núna heima og sinna fjarnámi. Heimilið breytist því í framhaldsskóla á kvöldin þegar vinnu lýkur. „Krakkarnir okkar hafa alltaf tekið virkan þátt í fyrirtækjarekstrinum og eru nánast alin upp í eldhúsi. Til að láta allt ganga upp voru þau sett í heimsendingar hjá Pítsugerðinni en við höfum ekki áður boðið upp á þá þjónustu. Það hafa því allir í fjölskyldunni sitt verkefni og við reynum að hjálpast að eins og við getum."

Matarpakkar til að elda heima „Við vorum svo búin að vera að þróa matarpakka sem fólk getur eldað sjálft heima. Við köllum þá Eldaðu GOTT heima og eru sambærilegir við það sem þekkist nema hér er það okkar matur sem fólk eldar. Við erum virkilega spennt fyrir þessari nýjung og vonandi verða viðbrögðin við henni góð,” segir Berglind að lokum og eins og sjá má deyr veitingafólk ekki ráðalaust um þessar mundir og ljóst að þjónusta við fólk sem er heimavið hefur aldrei verið betri.

Berglind skrifaði á dögunum pistil sem lýsir ástandinu vel og ættu ansi margir foreldrar að geta speglað sig í þessum aðstæðum:

Berglind Sigmarsdóttir er meðal annars höfundur bókanna Heilsuréttir fjölskyldunnar.
Berglind Sigmarsdóttir er meðal annars höfundur bókanna Heilsuréttir fjölskyldunnar. Styrmir Kári
Berglind Sigmarsdóttir og Sigurður Gíslason inni á GOTT í Vestmanneyjum.
Berglind Sigmarsdóttir og Sigurður Gíslason inni á GOTT í Vestmanneyjum.
mbl.is