Læknirinn toppaði sig með þessu rugli

Ragnar Freyr Ingvarsson.
Ragnar Freyr Ingvarsson. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Varúð! Áður en þú lest lengra skaltu vera fullkomlega meðvitaður/meðvituð um að þær bragðsamsetningar sem hér munu birtast kunna að koma einhverjum úr jafnvægi, æra óstöðuga og fá gúrmei-nagga til að emja af ánægju. Það er hinn eins sanni Læknir í eldhúsinu (eða Læknirinn í fremstu víglínu eins og við köllum hann núna) sem á heiðurinn að þessari snilld.

Flatbökur að hætti læknisins

Ofureinfaldar flatbökur - með kartöflum, spergilkáli og gráðaosti, svo önnur með rauðlauk, spínati, döðlum og cashewhnetum og í eftirrétt - fjögurra osta með bláberjum

Fyrir flatbökubotnana

 • 700 gr. hveiti
 • 300 ml volgt vatn
 • 2 msk. jómfrúarolía
 • 25 gr. ger
 • 25 gr. sykur
 • 2 tsk. salt

Fyrst er það deigið. Setjið hveitið í skál. Svo saltið. Og á eftir því olíuna. Vekið gerið í volgu vatni ásamt sykrinum og þegar það er búið að freyða í um 15 mínútur er hægt að byrja að hella því varlega saman við. Hnoðið vandlega í fimm til tíu mínútur. Setjið svo viskastykki yfir og setjið til hliðar til að hefast í um klukkustund.

Ljósmynd/Ragnar Freyr Ingvarsson
Ljósmynd/Ragnar Freyr Ingvarsson


Nýtni er dyggð - flatbaka með kartöflum, spergilkáli og rifnum gráðaosti

Hér nýtast afgangar vikunnar vel.

 • 3-4 msk. hvítlauksolía
 • 2-3 soðnar kartöflur
 • 1/2 haus spergilkál
 • handfylli af rifnum pizzaosti
 • 4-5 msk. af rifnum gráðaosti
 • salt og pipar

Penslið botninn með hvítlauksolíu, sáldrið rifnum pizzaosti yfir. Raðið svo soðnum kartöflum í sneiðum og á milli spergilkáli í litlum bitnum. Sáldrið svo nóg af gráðaosti á milli. Bakið í eins heitum ofni og mögulegt er á flatbökusteini. Það tryggir af botninn verði stökkur og ljúffengur.

Þrungin af bragði. Þessi er fyrir fullorðna fólkið - og er í uppáhaldi hjá mér.

Ljósmynd/Ragnar Freyr Ingvarsson
Ljósmynd/Ragnar Freyr Ingvarsson

Asískt ævintýri - flatbaka með rauðlauk, spínati, basil, döðlum og cashewhnetum.

Þessi er dálítið ævintýraleg. Og hún er líka algert sælgæti.

 • 3-4 msk. hvítlauksolía
 • handfylli af rifnum pizzaosti
 • 6-7 döðlur skornar í bita
 • 1/4 rauðlaukur í þunnum sneiðam
 • handfylli spínant
 • 3-4 basillauf
 • handfylli cashewhnetur

Penslið deigið með jómfrúarolíu og sáldrið ostinum jafnt yfir bökuna. Dreifið rauðlauk, spínati, rifnum basillaufum og döðlum ofan á. Skreytið með nokkrum cashew-hnetum. Bakið í eins heitum ofni og mögulegt er á flatbökusteini. Það tryggir af botninn verði stökkur og ljúffengur.

Ljósmynd/Ragnar Freyr Ingvarsson
Ljósmynd/Ragnar Freyr Ingvarsson


Eftirréttabaka - með rifnum pizzaosti, gullosti, höfðinga, piparosti - skreytta ferskum bláberjum

Þessi er ótrúlega ljúffeng. Og sigrar eiginlega alltaf.

 • 3-4 msk. hvítlauksolía
 • handfylli af rifnum pizzaosti
 • Nokkrar þunnar sneiðar af gullosti
 • Nokkrar þunnar sneiðar af höfðinga
 • Handfylli rifinn piparostur

Penslið bökuna með hvítlauksolíu, svo er flatbökunni drekkt í ljúffengum ostum. Bakið í eins heitum ofni og mögulegt er á flatbökusteini. Það tryggir af botninn verði stökkur og ljúffengur. Þegar bakan kemur úr ofninum er hún skreytt með bláberjum eftir smekk. Það er líka gott að prófa að nota sultu, rifsberjasultu eða jafnvel chili-sultu.

- - -

Fylgstu með Matarvefnum á Instagram og Facebook. Endalaus ævintýri, hugmyndir, skemmtilegir leikir og allt það heitasta heita...

Svo megið þið endilega tagga okkur á Instagram þegar þið eruð að elda eitthvað spennandi @matur.a.mbl

mbl.is