Segist ekki þurfa þurrger

Það er ekki auðvelt að verða sér úti um þurrger …
Það er ekki auðvelt að verða sér úti um þurrger á þessum síðustu og verstu tímum. Ljósmynd/Wikipedia.org

Dálkahöfundur hjá The Guardian spyr hvað hafi orðið um allt þurrgerið í Bretlandi en hér á landi er það nánast ófáanlegt.

„Fyrst beindu þeir sjónum sínum að klósettpappírnum og svo var það hveitið. Brauðhveitið kláraðist fyrst, síðan hveitið, svo heilhveitið, síðan lyftiduftið og svo í engri sérstakri röð rúgmjölið, speltið, taumhveitið og allar hinar dularfullu tegundirnar sem enginn kaupir venjulega. Fljótlega var þetta allt búið,“ skrifar hann og tengir ástandið að sjálfsögðu við alla þá sem eru heima hjá sér að baka á meðan kórónuveiran gengur yfir.

„Ég hélt að ég væri sá eini sem væri nógu snjall til að baka sitt eigið brauð. Hverjir eru þessir hveitiþjófar?“

Hann segir að brauðhveitið hafi komið fyrst aftur í búðirnar í þriggja kílóa pokum og að hann hafi næstum því þurft að berjast um það við annan náunga. Núna segist dálkahöfundurinn, Adrian Chiles, eiga nóg af hveiti en hann finni hvergi þurrger. Hann tekur þó fram að hann þurfi það í raun og veru ekki því hann hafi lengi verið heillaður af írsku sódabrauði og lætur hann fylgja með uppskrift af einu slíku.

„Þeir sem hafa hamstrað þurrgerið getað prófað það þegar þeir verða loksins uppiskroppa eftir fimm ár eða svo.“

mbl.is