Kol með matarpakka fyrir sælkera

Það er ekki annað hægt en dást að hugmyndaauðgi veitingastaða sem hafa flestir vent kvæði sínu í kross og einbeita sér nú að heimsendingum á mat.

Þetta á ekki bara við um skyndibitastaði heldur hafa „fine dining“-staðirnir okkar líka slegist í hópinn og því ber að fagna.

Veitingastaðurinn Kol á Skólavörðustíg býður nú upp á svokallaða sækerapakka sem eru með óhefðbundnu sniði þar sem máltíðirnar eru afgreiddar fulleldaðar í aðskildum ílátum. Það eina sem þarf að gera er að fylgja laufléttum leiðbeiningum heima til að hita upp hráefnin og raða þeim á disk. Tryggir þetta hámarksgæði auk þess sem viðskiptavinurinn fær útrás fyrir listræna hæfileika.

Á boðstólum eru nokkrir mismunandi forréttir, aðalréttir og eftirréttir ásamt samsettum matseðlum, tveggja og þriggja rétta. Matinn þarf að panta daginn áður og er gengið frá pöntunum í vefverslun á heimasíðunni kolrestaurant.is.

mbl.is