Gratíneruð ýsa með bragðmikilli fetaostssósu

Ljósmynd/GRGS-Valla

Það er nauðsynlegt að fá sér smá fisk og þessi uppskrift ætti að slá í gegn hjá öllum heimilismeðlimum. Hann er ættaður frá GRGS.is en það er hún Valla sem á heiðurinn af uppskriftinni.

„Gratíneraðir fiskréttir hafa alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér. Góð sósa er auðvitað lykilatriði og bráðinn osturinn til þess að toppa allt. Þessi réttur er reglulega góður og alls ekki flókinn í gerð. Fullkominn fyrir alla fjölskylduna og uppskriftin er stór svo það er jafnvel hægt að frysta afgangana til að eiga síðar eða taka með í nesti daginn eftir,“ segir Valla um réttinn sem við hvetjum ykkur til að prófa.

Gratíneruð ýsa með bragðmikilli fetaostssósu

 • 800 g - 1 kg ýsuflök, roðflett og beinlaus
 • 1 bolli þurr hýðishrísgrjón soðin, líka gott að nota afgangs hrísgrjón
 • 1 rauð paprika
 • 10 cm blaðlaukur
 • 150 g sveppir
 • 250 g kotasæla
 • 1 dl rjómi frá Örnu
 • 3 msk. majónes
 • 1 krukka salatfeti frá Örnu 1/2 fiskiteningur — 1/2 grænmetisteningur
 • sítrónupipar
 • 1 tsk. dill
 • 1 poki rifinn mozarella með hvítlauk frá Örnu

Aðferð:

1. Byrjið á því að sjóða einn bolla af hýðishrísgrjónum eftir leiðbeiningum. Setjið í eldfast mót.

2. Skerið ýsuna í bita og leggið ofan á hrísgrjónin og kryddið með sítrónupipar eftir smekk.

3. Saxið grænmetið og stráið yfir fiskinn.

4. Sigtið fetaostinn og stappið. Blandið saman í skál kotasælu, fetaosti, rjóma og majónesi. Myljið fisk- og grænmetistening út í og kryddið með dilli.

5. Setjið sósuna yfir grænmetið og toppið með rifnum mozzarella.

6. Bakið við 190°C í 30 mín eða þar til osturinn er gylltur og fiskurinn tilbúinn. Berið fram með fersku salati og soðnum kartöflum.

- - -

Fylgstu með Matarvefnum á Instagram og Facebook. Endalaus ævintýri, hugmyndir, skemmtilegir leikir og allt það heitasta heita ...

Svo megið þið endilega tagga okkur á Instagram þegar þið eruð að elda eitthvað spennandi @matur.a.mbl

Ljósmynd/GRGS-Valla
mbl.is