Hvetja viðskiptavini til að nýta snertilausar sendingar

Domino's hefur verið leiðandi í að tryggja heimsendingar til fólk og afhendingu á pítsum og hefur fyrirtækið jafnframt sett öryggi viðskiptavinanna í forgrunn. Í yfirlýsingu sem er að finna á vef Domino's segir Birgir Örn Birgisson, forstjóri fyrirtækisins, meðal annars að allt starfsfólk fyrirtækisins vinni linnulaust að því að veita þá allra bestu þjónustu sem völ er á undir þessum fordæmalausu kringumstæðum og að vonandi geti fyrirtækið létt undir með fólki á matartímum nú sem áður. 

Segir Birgir Örn einnig að starfsfólk fyrirtækisins vinni alla daga eftir ströngum ferlum varðandi hreinlæti og matvælaöryggi og sé því vel undir það búið að takast á við þá stöðu sem nú er komin upp. Þess megi einnig geta að ofnarnir séu 260 gráðu heitir og hafi það fengist staðfest að bakteríur og veirur (þar á meðal COVID-19) lifi ekki í slíkum hita. Eftir að pítsurnar og aðrar vörur komi út úr ofninum séu þær aldrei snertar með höndum og þannig hafi það alltaf verið til þess að gæta að hreinlæti og öryggi viðskiptavina.

„Við hvetjum ykkur eindregið til að nýta ykkur þann kost að fyrirframgreiða á vefnum eða appinu og forðast þannig snertingar við posa eða peninga. Að auki verða héðan í frá allar heimsendingar að vera greiddar fyrirfram á vef eða appi og þannig drögum við úr snertingu á milli bílstjóra og viðskiptavina. Til þess að tryggja öryggi enn frekar í heimsendingum höfum við boðið upp á snertilausar sendingar fyrir viðskiptavini okkar í sóttkví og aðra sem slíkt kjósa. Þá pantar viðskiptavinur í gegnum vef eða app, greiðir pöntun fyrirfram og skrifar „snertilaus sending“ sem athugasemd við heimilisfang.“

Birgir Örn Birgisson, forstjóri Domino's á Íslandi.
Birgir Örn Birgisson, forstjóri Domino's á Íslandi. mbl.is/Valli
mbl.is