Domino's bætir enn við þjónustuna

mbl.is/aðsend mynd
Í vikunni kynnti Domino's bílastæðaafhendingu, nýjan kost fyrir þá sem vilja sækja sér pítsu án þess að þurfa að fara út úr bílnum. Þessi valkostur verður í boði á milli kl. 17:00 og 21:00 alla daga næstu vikur.
Berglind Jónsdóttir markaðsfulltrúi Domino's segir að fyrirtækið hafi síðustu vikur leitað allra lausna til að tryggja öryggi viðskiptavina og starfsmanna og með þessu móti sé hægt að gæta betur að því að nánd á afgreiðslusvæði verði ekki of mikil á háannatíma. Fyrirtækið setti einnig upp plexigler í afgreiðslu sinni á dögunum og því minni nálægð nú en áður fyrir þá sem kjósa að koma inn og sækja. 
Berglind segir einfalt að fá afhent beint í bílinn. Fyrst sé pöntun sett saman í appi eða á vefnum og í lokaskrefinu sé hægt að smella í „ég vil fá afhent út í bíl“ ef valið er að greiða fyrirfram. Þá sé mikilvægt að skrifa inn bílnúmer, tegund og lit áður en pöntun er staðfest. Þegar viðskiptavinur hefur svo fundið bílastæði nálægt inngangi þarf að opna appið eða vefinn í símanum, og smella á „ég er mætt(ur)“, þá fær starfsfólk tilkynningu um að viðskiptavinur sé á svæðinu og kemur út með pöntunina um leið og hún er tilbúin. 
mbl.is