Gulrótarúlluterta með rjómaostskremi og karamellusósu

Ljósmynd/María Gomez

Það verður seint tekið af Maríu Gomez á Paz.is að hún er framúrskarandi frumleg og hér er engin breyting á. Þessi kaka er svo girnileg að hún flokkast eiginlega sem skyldubakstur.

Gulrótarúlluterta með rjómaostskremi og Dumle-karamellusósu

Botninn

  • 100 g hveiti
  • 1 tsk. kanill
  • 1 tsk. lyftiduft
  • ½ tsk. salt
  • ½ tsk. engiferduft
  • ¼ tsk. múskat (á hnífsoddi)
  • ⅛ tsk. negull (smá milli fingra)
  • 2 tsk. bökunarkakó (ég notaði frá Cadbury)
  • 3 stór egg
  • 120 g sykur
  • 2 msk. olía
  • 1 tsk. vanilludropar eða vanilluextrakt
  • 3 meðalstórar gulrætur ca 200 g

Fylling

  • 225 g flórsykur
  • 300 g hreinn Philadelphia-rjómaostur (1,5 öskjur)
  • 120 g mjög mjúkt smjör
  • 1,5 tsk vanilludropar eða vanilluextrakt
  • Dumle-karamellusósa
  • 2 pakkar eða 240 g Dumle karamellur
  • 1 dl rjómi

Botninn

  1. Byrjið á að hita ofninn í 190-200 C° blástur
  2. Setjið smjörpappír á skúffu sem er ca 38x25 cm (ég notaði ferkantaðan pítsubakka sem ég keypti í Bónus en það má líka nota hefðbundna ofnskúffu en þá verður botninn ögn þynnri)
  3. Látið smjörpappírinn ná fram yfir sitthvorumegin við plötuna
  4. Blandið saman í litla skál þurrefnum þ.e. hveiti, kanil, lyftiduft, salti, engifer, múskati, kakó og negul
  5. Setjið svo í hrærivélarskál egg, sykur og vanillu og þeytið þar til froðukennt og ljóst
  6. Rífið niður gulræturnar og blandið svo við í hrærivélarskálina ásamt olíunni og hrærið varlega með sleikju saman
  7. Setjið svo þurrefnin saman við í hrærivélarskálina og þeytið á lægsta hraða þar til það er rétt blandað saman, passið að þeyta ekki of mikið
  8. Hellið svo deiginu á bökunarplötuna og sléttið úr því jafnt yfir hana alla og bakið í 12-15 mínútur, gott að stinga prjóni í til að vita hvort sé alveg til
  9. Þegar hún kemur úr ofninum takið hana þá strax af plötunni með því að lyfta botninum upp með því að taka sitthvorumegin í smjörpappírinn þar sem þið létuð hann ná út fyrir
  10. Setjið hana á aðra kalda bökunarskúffu með smjörpappírnum undir og rúllið botninum heitum upp á lengdina eins og þú værir að rúlla rúllutertunni upp með því að notast við smjörpappírinn til þess. Látið botninn kólna alveg upprúllaðan (hér er kremið ekki sett á milli strax)

Rjómaostskrem

  1. Hafið smjörið vel mjúkt (má setja í örbylgju í 20 sek.)
  2. Setjið það svo í hrærivélarskál og þeytið með rjómaosti og vanillu
  3. Bætið svo flórsykrinum smátt og smátt út í og þeytið þar til vel ljóst og létt
  4. Dumle-karamellusósa
  5. Setjið karamellur og rjóma saman í pott við vægan hita
  6. Standið yfir pottinum allan tímann og hrærið reglulega í meðan karamellurnar bráðna við rjómann
  7. Þegar sósan er orðin silkimjúk og glansandi hellið henni þá í könnu og setjið til hliðar

Samsetning

  1. Þegar botninn hefur alveg kólnað rúllið honum þá í sundur ofan á filmuplast og smyrjið 2/3 hluta af kreminu yfir allan botninn, skiljið samt eins og 0,5 cm án krems eftir við hverja brún
  2. Rúllið nú botninum aftur upp með því að nota filmuna undir til að rúlla henni og vefjið henni svo upprúllaðri inn í filmuna og setjið í kæli í minnst 1 klst eða meira
  3. Þegar bera á kökuna fram smyrjið þá restinni af kreminu ofan á hana og í kring og hellið karamellusósunni yfir, en passið að hafa vel afgang af henni til að bera fram aukalega með kökunni

Punktar

Þið getið smá leikið ykkur með þessa köku og sem dæmi sett valhnetur eða pekanhnetur í botninn og svo stráð kókos yfir ostakremið ef þið viljið eitthvað extra.

- - -

Fylgstu með Matarvefnum á Instagram og Facebook. Endalaus ævintýri, hugmyndir, skemmtilegir leikir og allt það heitasta heita ...

Svo megið þið endilega tagga okkur á Instagram þegar þið eruð að elda eitthvað spennandi @matur.a.mbl

Ljósmynd/María Gomez
Ljósmynd/María Gomez
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert