Safna fyrir nýjum veitingastað

Hópurinn sem stendur að baki veitingastaðarins.
Hópurinn sem stendur að baki veitingastaðarins. Ljósmynd/Karolina Fund

Á Laugavegi 2 stendur eitt sögufrægasta hús landsins og nú stendur til að opna þar veitingastað sem byggist alfarið á næringarríku plöntufæði.

Verið er að safna fyrir opnun staðarins inni á Karolina Fund og hvetjum við að sjálfsögðu alla til að leggja hönd á plóg.

„Á fyrstu hæðinni verður veitingastaðurinn þar sem komast fyrir rúmlega 50 manns við borð. Matseðillinn okkar verður 100% byggður á næringarríku plöntufæði. Við viljum geta boðið fólki upp á mat sem er tær og heilnæmur. Hráefni staðarins verður eins íslenskt og árstíðabundið og kostur er. Samhliða matseðlinum verður boðið upp á drykkjarseðil á te/tonic-barnum okkar en sá seðill verður hannaður af sterku teymi sem hefur lagt áhuga sinn í lækningamátt jurta.

Á annarri hæð hússins verður hlýlegt seturými, þar munum við skapa töfrandi andrúmsloft fyrir þig að koma og slaka á í rólegu umhverfi. Hér getur þú notið þeirra heilsudrykkja sem við bjóðum upp á.

HVER ERUM VIÐ?

Við erum hópur einstaklinga sem vill gefa af sér með því að skapa rými þar sem við getum deilt gjöfum okkar og tekið á móti gjöfum annarra. Við höfum öll verið að kanna mismunandi leiðir til að viðhalda alhliða heilbrigðum lífsstíl. Jógar, kokkar, tónlistarfólk, ferðalangar, náttúruunnendur, mæður, feður og lífskönnuðir. Við viljum gefa af okkur og halda áfram vextinum í gegnum þetta verkefni. Okkur líður eins og þessi staður muni gefa Reykjavík þá orku sem hún á skilið; byggða á heilnæmi, lífsleikni, heilsu, samfélagi, kærleika og ástríðu.

LANGTÍMASÝN

Við trúum því að það að lifa í jafnvægi og í meðvitund um umhverfið sé mikilvægur þáttur þess að lifa heilnæmum lífsstíl. Þegar veitingastaðurinn er kominn á góðan skrið munum við setja hluta af innkomu hans í samfélagssjóð og nýta til að fjárfesta í landi þar sem við munum rækta okkar eigin mat og verða sjálfbær. Stór hluti ræktunarinnar verður notaður á veitingastaðnum til að stuðla að hámarksferskleika. Svona verðum við ennþá árstíðabundnari og staðbundnari. Beint frá býli.“

Það ættu allir að þekkja Laugaveg 2.
Það ættu allir að þekkja Laugaveg 2. Ljósmynd/Karolina Fund
Staðurinn mun sérhæfa sig í fæði úr plönturíkinu.
Staðurinn mun sérhæfa sig í fæði úr plönturíkinu. Ljósmynd/Karolina Fund
mbl.is