Krónan býður framlínunni og fólki í áhættuhópi í snjallverslun sína

Ein af verslunum Krónunnar.
Ein af verslunum Krónunnar. Ljósmynd/Aðsend

Undanfarnar vikur hefur fámennur hópur sinnt betaprófun á snjallverslun Krónunnar með góðum árangri. Nú er komið að því að bjóða stærri hópi aðgang og vill Krónan bjóða framlínunni, þeim sem standa vaktina fyrir samfélagið, inn í snjallverslunina auk þeirra sem eru í áhættuhópi.

Með framlínunni er meðal annars átt við heilbrigðisstarfsmenn, lyfsala, kennara, lögreglumenn, starfsfólk hjúkrunarheimila og svo mætti lengi telja.

Þeir sem eru í áhættuhópi eru m.a. fólk með undirliggjandi sjúkdóma og aldraðir.

Snjallverslun Krónunnar hefur verið í þróun undanfarin ár og til stóð að opna hana með formlegum hætti nú í haust. Vegna COVID-19 hefur opnun verið flýtt til að tryggja aðgang almennings að lágverðsverslun heiman frá sér.

„Þegar kom að því að leita eftir stærri hópi til að prófa snjallverslun okkar og hjálpa okkur að undirbúa hana fyrir almenna opnun varð okkur hugsað til þeirra sem mega ekki eða eiga ekki að fara í matvöruverslanir. Þá erum við að hugsa um alla þá sem starfa í framlínunni, fólk sem leggur sig í ákveðna hættu á hverjum degi við að halda samfélaginu gangandi og svo þá sem tilheyra áhættuhópum. Við eigum sem samfélag mikið undir að vernda þetta fólk eins og kostur er. Við viljum því gera það sem í okkar valdi stendur og bjóða þeim inn í prufuhópinn og gefa þeim kost á að versla á hagkvæmu verði heiman frá sér,“ segir Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar.

Krónan býður framlínunni og fólki í áhættuhóp að skrá sig í facebookhóp Snjallverslunarinnar en þar verður hægt að skrá sig fyrir prufuaðgangi.

Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar.
Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert