Veitingahúsaupplifun sem þú getur ekki ímyndað þér

Stórglæsilegur veitingastaður í hjarta Kaupmannahafnar þar sem upplifunin er ótrúleg.
Stórglæsilegur veitingastaður í hjarta Kaupmannahafnar þar sem upplifunin er ótrúleg. mbl.is/Claes Bech Poulsen

Fljótandi marglyttur og glóandi norðurljós eru á meðal þess sem veitingahúsagestir á staðnum Alchemist í Kaupmannahöfn upplifa á meðan snætt er á gómsætum mat.

Veitingastaðurinn var hannaður til að bjóða sönnum matgæðingum upp á líkamlega og vitsmunalega upplifun sem aldrei fyrr. En staðurinn býður upp á 50 rétta matseðil! Alchemist var ekki svona íburðamikill í fyrstu en þegar til bauðst að stækka staðinn var það tekið alla leið með því að veita gestum einnig örvun í gegnum sjón og hljóð.

Veitingastaðurinn er staðsettur í iðnaðarhverfinu Refshaleøen, þar sem má finna aðra framúrstefnulega veitingastaði og bari. Alchemist var áður bygging sem hýsti bátaverkstæði og síðar var húsið hönnunarrými fyrir danska þjóðleikhúsið. Hluti af innréttingunum hefur verið umbreytt í litlar borðstofur sem henta margréttaða veitingastaðnum vel, þar sem gestir ferðast á milli rétta.

Ef þú hefur hug á að upplifa matinn á Alchemist, þá munt þú byrja á því að ganga inn um þriggja metra háa bronshurð sem í hafa verið ristaðar trjágreinar. Því næst kemur þú inn í rými þar sem ólíkum listamönnum er boðið að vera með yfirgripsmiklar innsetningar. Síðan kemur þú að glæsilegu barsvæði þar sem hristir eru kokteilar og fyrstu léttu réttir kvöldsins eru bornir fram. Í þessu 14 metra háa rými má sjá þriggja hæða glervínkjallara sem geymir rétt um 10.000 flöskur. Fjögurra metra löng koparljósakróna hangir frá loftinu og lýsir upp setustofuna fyrir neðan þar sem bleikir og bláir flauelsstólar bjóða gestum gott sæti.

Eldhús staðarins er bak við glervegg, svo gestir geta séð kokkana að störfum. Þar má einnig sjá stóra upplýsta hillu þar sem glerkrukkur skreyta hilluna með ýmsum innihaldsefnum sem vekja athygli – rétt eins og á rannsóknarstofu.

Næst er gengið upp stiga og yfir glerbrú sem leiðir þig inn í annað rými inn í stórri hvelfingu sem mælist um 18 metrar í þvermál. Í hvelfingunni eru sýndar hreyfanlegar myndir, allt frá næturhimni, norðurljósum og fljótandi marglyttum inn á milli plastpoka í sjónum – til að vekja athygli á hversu mengaður heimurinn er. Hér fá gestir að upplifa rétti eins og kirsuberjagljáð lambakjöt og foie gras sem borið er fram inn í gervi höfuðkúpu.

Ekki er allt búið enn því lyfta tekur þig næst upp á þriðju hæð þar sem eftirrétturinn er borinn fram. Hér er allt mun hlýlegra en á hinum tveim hæðunum, þar sem rýmið er klætt timburgólfefnum og mjúkum sófum. Á þriðju hæðinni er einnig arinn til að ylja sér við og tebar fyrir þá sem hafa ennþá pláss eftir að hafa borðað 50 rétti á einu kvöldi.

Fjögurra metra löng kopar ljósakróna hangir neðan úr loftinu.
Fjögurra metra löng kopar ljósakróna hangir neðan úr loftinu. mbl.is/Claes Bech Poulsen
Hluti af veitingastaðnum er innan í hvelfinu.
Hluti af veitingastaðnum er innan í hvelfinu. mbl.is/Claes Bech Poulsen
Veitingastaðurinn Alchemist er engum líkur!
Veitingastaðurinn Alchemist er engum líkur! mbl.is/Claes Bech Poulsen
mbl.is