Eiginkonan felldi tár yfir sveppabrauði aldarinnar

Ljósmynd/Ragnar Freyr Ingvarsson

Hver elskar ekki Lækninn í eldhúsinu og ástaróðana sem hann er búinn að ofnbaka undanfarna laugardaga til heiðurs Helga Björs og Reiðmönnum vindanna. Fjölskylda Ragnar hefur, líkt og þjóðin öll, setið spennt og horft á þessa þætti en í kvöld er síðasti þátturinn á dagskrá. Ragnar býður hér upp á sígildan og sjúklega góðan sveppabrauðrétt sem allir ættu að elska.

„Undanfarnar vikur hef ég verið að skrifa ástaróða til Helga Björns, Vilborgar og Reiðmanna vindanna fyrir frumkvæði þeirra við að sameina þjóðina með söng og samhug á laugardagskvöldum. Síðasta laugardagskvöld heppnaðist svo vel að eiginkona mín felldi tár yfir söng Sigríðar Thorlacius. Vel heppnað og tilfinningaþrungið kvöld," segir Ragnar og við tökum heilshugar undir.

Sveppabrauð aldarinnar

  • 1 rúllutertubrauð
  • ½ dós sýrður rjómi
  • 3 msk. majónes
  • ½ dós sveppasmurostur
  • 250 g kastaníusveppir
  • 50 g smjör
  • 1 hvítlauksrif
  • 4 msk þurrkaðir sveppir
  • 1 villisveppaostur
  • ½ gullostur
  • handfylli gratínostur
  • truffluolía frá Olio Principe
  • þeytt eggjahvíta úr einu eggi
  • salt og pipar

Aðferð:

  1. Þetta er líklega einfaldasta matseld sem um getur.
  2. Blandið saman sýrðum rjóma, majónesi og smurosti og smyrjið ofan á brauðið. Skerið ostinn og dreifið yfir.
  3. Skerið sveppina í sneiðar og brúnið upp úr smjöri. Þegar sveppirnir eru komnir hálfa leið bætið þið smáttskornum hvítlauk saman við og steikið áfram.
  4. Vekið þurrkuðu sveppina í soðnu vatni. Veiðið uppúr og saxið niður.
  5. Dreifið sveppunum jafnt yfir brauðið. Rúllið þvínæst upp og þéttið aðeins saman.
  6. Penslið með þeyttri eggjahvítu, dreifið truffluolíu yfir. Skerið gullostinn í þunnar sneiðar og raðið ofan á brauðið. Bætið smáræði af gratínosti yfir.
  7. Bakið í 45 mínútur við 180 gráðu hita í forhituðum ofni.

Ég bar sveppabrauð aldarinnar fram með bjór frá Borg Brugghúsi - Öskrar á Svepp. Fannst það viðeigandi. Hann er ávaxtaríkur, aðeins humlaður IPA og passaði vel með sveppabrauðinu. Annað hefði nú verið vonbrigði.

Núna mega Helgi, Vilborg og Reiðmenn vindanna hefja upp raust sína.

- - -

Fylgstu með Matarvefnum á Instagram og Facebook. Endalaus ævintýri, hugmyndir, skemmtilegir leikir og allt það heitasta heita...

Svo megið þið endilega tagga okkur á Instagram þegar þið eruð að elda eitthvað spennandi @matur.a.mbl

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert