Stór ákvörðun en teljum að hún sé rétt

Hrefna Rósa Sætran.
Hrefna Rósa Sætran. Ljósmynd/Björn Árnason

„Þetta er stór ákvörðun en við teljum að hún sé rétt," segir Hrefna Sætran um ákvörðun hennar og meðeigenda sinna á Fiskmarkaðnum og Grillmarkaðunum um að sameina staðina tvo. Hrefna segir að lengi hafi verið legið undir feldi enda staðan hjá veitingastöðum þung og því mikilvægt að koma fram með snjallar lausnir.

Með þessum hætti sameinast tveir veitingastaðir í einn og eftir situr húsnæði Fiskmarkaðarins sem verður nýtt undir veislur og einkaviðburði.

„Við erum virkilega spennt fyrir því að geta loksins boðið upp á húsnæði til að halda veislur. Mér finnst það geggjað concept. Ég væri sjálf mikið til í að fara í gott partý þar. Fyrst við getum gert þetta þá finnst okkur þetta ekki spurning. Ekki að vera í samkeppni við okkur sjálf heldur sameina krafta beggja staða,” segir Hrefna.

„Við vitum ekki hversu lengi þetta verður. Það breytist svo margt dag frá degi. En við erum mjög ánægð með þessa ákvörðun og spennt fyrir sameiningunni og að geta boðið gestum okkar upp á fjölbreyttari þjónustu. Við höfum líka aukið úrvalið af take away og sushi á Grillmarkaðnum," segir Hrefna en take away þjónustan hefur að hennar sögn mælst vel fyrir meðal aðdáenda staðanna tveggja.

Opið er alla daga frá kl. 18.

Facebook-síða Grillmarkaðarins.

mbl.is