Nýir íslenskir ostar væntanlegir í verslanir

Ljósmynd/MS

Úr hjarta Skagafjarðar koma nýir bragðmiklir gæðaostar sem fengið hafa nafnið Goðdalir, en nafnið er gamalt heiti yfir Skagafjarðardali. Ostarnir sem nú koma á markað heita Feykir, Grettir og Reykir en þeir eru ólíkir öðrum íslenskum ostum að því leyti að þeir eru allir búnir til í svokölluðum ostahjólum og síðan vaxbornir áður en þeir eru látnir þroskast í mislangan tíma. Hvert ostahjól vegur um 15 kg sem síðan er handskorið og pakkað af natni þegar hver ostur hefur náð fullum þroska.

Feykir er bragðmikill ostur sem hefur þroskast í 12 mánuði eða lengur. Kringlótt lögun og vaxhjúpur eiga þátt í þroskun ostsins og gefa honum áferð og bragð þar sem kristallamyndun og sætukeimur mætast á einstakan hátt.

Grettir er sætur og stökkur ostur sem kemur skemmtilega á óvart. Sérstök geymsluaðferð gefur honum milt og ljúft bragð sem og flauelsmjúka áferð. Grettir er margslunginn ostur sem erfitt er að standast.

Reykir er einstakur og spennandi ostur sem búið er að kaldreykja með íslensku birki. Osturinn fær sérstakan lit og áferð við reykinguna til viðbótar við léttan reykjarilminn. Reykir ber keim af kjötmeti og því fylgir einkar kröftugt eftirbragð.

Nánari upplýsingar um ostana og hvernig þeir parast með mat og drykk er að finna á vefsíðunni goddalir.is

Ljósmynd/MS
Ljósmynd/MS
Ljósmynd/MS
Ljósmynd/MS
mbl.is