Hraðlestin opnar nýjan stað á Grensásvegi

Chandrika Gunnarsson, eigandi veitingakeðjunnar Hraðlestarinnar, opnaði fjórða veitingastaðinn með sama nafni síðasta vetrardag. Auk þess á hún og rekur veitingastaðinn Austur-Indíafjelagið á Hverfisgötu í Reykjavík, sem hún og eiginmaðurinn Gunnar Gunnarsson heitinn byrjuðu með 1994 eftir að hafa kynnst í háskólanámi í Bandaríkjunum og flutt til Íslands árið áður.

Chandrika Gunnarsson.
Chandrika Gunnarsson.

„Með tilliti til aðstæðna vegna kórónuveirunnar get ég ekki kvartað, gestir hafa tekið nýja staðnum á Grensásvegi vel, rétt eins og hinum,“ segir hún, en þeir eru á Hverfisgötu og í Lækjargötu, einnig í Reykjavík, og í Hlíðasmára í Kópavogi. Hún segist lengi hafa haft augastað á hverfinu og þegar húsnæði hafi boðist á horni Grensásvegar og Skeifunnar í lok nýliðins árs hafi hún ekki þurft að hugsa sig um tvisvar. Þar hafi hún fundið stað þar sem starfsfólk Hraðlestarinnar hefði góða aðstöðu til að sinna vöruþróun og þjóna viðskiptavinum úr nærliggjandi hverfum.

Góð reynsla frá Indlandi

Chandrika er frá Bangalore í suðurhluta Indlands. Þar ólst hún upp við indversk krydd og indverska matargerð auk þess sem hún vann í öllum störfum frá uppvaski til stjórnunar á veitingastað samfara námi í Suður-Karólínu.

„Mér hefur alltaf þótt gaman að elda mat og þegar ég flutti til Íslands var enginn indverskur matstaður hérna, en með reynslu mína í huga fannst mér tilvalið að opna slíkan stað,“ segir hún um byrjunina fyrir 26 árum. „Með því slægi ég tvær flugur í einu höggi, skapaði okkur atvinnu og byði gestum upp á það besta í indverskri matargerð.“

Frá upphafi hefur Chandrika lagt áherslu á ferskt úrvalshráefni og leggur hún áherslu á að það skipti mjög miklu máli. „Við höfum rekið fyrsta veitingastaðinn á sama stað á sömu kennitölu í 26 ár, starfsfólkið hefur unnið lengi hjá okkur og kokkarnir okkar, Lakshman, Madaiah, Prakash og Biju, hafa starfað með okkur áratugum saman. Það segir sitt,“ segir hún og bætir við að þau hafi opnað fyrstu Hraðlestina á Hverfisgötu 2003 til að létta á álaginu á Austur-Indíafjelaginu. Vinsældirnar hafi farið fram úr björtustu vonum og þótt mörgum þyki undarlegt að opna veitingastað í samkomubanni sé það ekki óeðlilegt. „Viðskiptavinirnir hafa sýnt okkur mikla hollustu á þessum erfiðu tímum rétt eins og þeir hafa alltaf gert. Þegar þeir gátu ekki komið til okkar með sama hætti og áður komum við til þeirra og þeir hafa brugðist vel við.“

Þó að kórónuveirufaraldurinn hafi komið snöggt las Chandrika rétt í hann og byrjaði með heimsendingar í byrjun mars auk þess sem haldið var áfram að afgreiða mat til að fara með annað. „Við vorum viðbúin lokunum í sal og ákváðum að halda áfram með sama fólk í hverju eldhúsi, fórum eftir öllum ráðleggingum yfirvalda, hver eining var út af fyrir sig og gerði nánast ekkert annað en að vinna og sofa án samneytis við aðra. Þetta gekk vel, við sögðum engum upp en vinnuhlutfallið var skert og eftir að við opnuðum matsalina með tvo metra á milli borða í vikubyrjun eru hjólin farin að snúast hraðar hægt og sígandi.“

Chandrika áréttar að í raun sé um fjölskyldufyrirtæki að ræða og hún gæti ekkert án góðs og trausts starfsliðs. „Börnin mín, Jóhanna og Ísarr, hafa staðið við hlið mér sem klettar. Við höldum áfram að gera það sem við gerum best og stöndum öll saman. Framtíðin er björt, jafnt hjá okkur og viðskiptavinum okkar. Hjá landinu okkar.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »