Svona heldur þú skurðarbrettinu í lagi

Skurðarbrettið þitt þarf á þolinmæði að halda til að það …
Skurðarbrettið þitt þarf á þolinmæði að halda til að það endist lengur. mbl.is/Colourbox

Viðarbretti eru falleg, tímalaus og umhverfisvæn. En þau eiga það til að slitna hraðar en önnur bretti ef við hugsum ekki nægilega vel um þau. En með þessum skotheldu ráðum muntu eiga brettið þitt í áraraðir.

Hversu oft höfum við hent skurðarbretti, vegna þess að það er farið að láta á sjá? Sértu með skurðarbretti úr hörðum gegnheilum við þarf brettið á smá þolinmæði að halda. Þannig munt þú eiga brettið í áraraðir.

Svona fjarlægir þú vonda lykt
Skerðu sítrónu til helminga og stráðu grófu salti yfir brettið. Nuddaðu sítrónunni í hringi á brettið með saltinu. Bíddu í nokkrar mínútur þar til þú þværð brettið með heitu vatni og mildri sápu. Þurrkið og látið standa á borði til að jafna sig.

Nærðu brettið með olíu
Eins og með allan annan við þarf að halda honum ferskum með olíu. Veldu góða matarolíu til að smyrja á brettið. Brettið þarf að vera alveg þurrt þegar þú berð á það, þannig sýgur viðurinn næringuna í sig. Nuddaðu olíunni á brettið og leyfðu því að standa upp við vegg á borði í nokkra tíma. Þurrkaðu þá létt yfir til að taka restina af olíunni. Gott er að leyfa brettinu að jafna sig í 2-3 daga á eftir áður en þú tekur það aftur í notkun.

Allt of mikið af rispum á brettinu?
Ef trébrettið er allt í rispum og rákum eftir beitta hnífa gæti borgað sig að pússa yfir það með mjög fínum sandpappír. Passaðu að brettið sé þurrt þegar þú byrjar og alls ekki leggja of mikla krafta í verkið. Þvoðu brettið á eftir upp úr heitu vatni og sápu.

Ekki setja brettið í uppþvottavélina
Við höfum margoft heyrt þetta áður með brettið og uppþvottavélina, en aldrei er góð vísa of oft kveðin. Viðarbretti á bara alls ekki heima í uppþvottavélinni, þar sem viðurinn getur klofnað í rakanum.

Þvoðu brettið eftir hverja notkun
Eftir að hafa notað brettið skaltu ekki láta það standa of lengi skítugt. Þvoðu það með mildri sápu og þurrkaðu á eftir með viskastykki. Og mundu að leyfa brettinu að „anda“ áður en þú pakkar því niður í skúffu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert