„Eitt besta nautakjöt sem komið hefur í verslanir hér á landi.“

Sigurður Reynaldsson, framkvæmdastjóri Hagkaups.
Sigurður Reynaldsson, framkvæmdastjóri Hagkaups. Ljósmynd/Aðsend

Alvöru galloway- og limosin-nautasteikur í Hagkaup

Þau tíðindi berast úr herbúðum Hagkaups að væntanlegt sé í verslanir þeirra íslenskt ungnautakjöt af séröldum holdagripum af galloway- og limosin-kyni.

Að sögn Sigurðar Reynaldssonar, framkvæmdastjóra Hagkaups, á framleiðslan sér langan aðdraganda en íslenskir bændur hafi unnið að því síðustu ár að bæta gæði íslensks nautakjöts. Farið var í kynbætur og áhersla lögð á þau afbrigði sem talin voru henta best hér á landi. „Fyrir valinu urðu galloway- og limosin-kynið sem eru gríðarlega flott. Kjötið kemur frá Bessa á Hofstaðaseli og ég leyfi mér að fullyrða að útkoman er eitt flottasta og besta nautakjöt sem komið hefur í verslanir hér á landi.“ Ferskar kjötvörur sáu um verkun á kjötinu en það var látið meyrna í þrjár vikur sem gerir það að verkum að það er fullfitusprengt og tilbúið beint á grillið eða pönnuna.

„Gripirnir hafa verið séraldir við bestu mögulegu aðstæður síðustu 24 mánuði og má segja að það sé að hefjast nýr kafli í íslenskri nautgriparækt með þessu. Þetta eru stórtíðindi fyrir okkur því þetta er í fyrsta skipti sem við getum boðið þetta kjöt í einhverju magni. Við reiknum með að eiga þetta kjöt að minnsta kosti í tvær vikur. Síðan eigum við von á því aftur síðar í sumar en stóru fréttirnar eru þær að það styttist í að við getum verið með það á boðstólnum allt árið um kring,“ segir Sigurður.

Afurðir þessara gripa eru töluvert ólíkar því sem neytendur eru vanir. Nautgripirnir eru næstum tvöfaldir að stærð miðað við hefðbundin íslensk naut og því allar steikur stærri. Til að mynda vegur lundin 2,2 kíló.

Að sögn Sigurðar mun kjötið vera tilbúið í neytendapakkningum í öllum verslunum Hagkaups og verður hægt að velja um rib-eye, lundir, fille og entrecote. Þá verða einnig sérstakir rib-eye-hamborgarar fáanlegir úr kjötinu. Sigurður staðfestir að það verði því sannkölluð nautaveisla í verslunum Hagkaups um helgina og hvetur matgæðinga landsins til að missa ekki af þeirri veislu.

Uppfært: Nautakjötið er komið í allar verslanir Hagkaups og verður til sölu á meðan birgðir endast.

Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert