Einkakokkur Opruh léttist um 30 kíló

Art Smith og Oprah Winfrey.
Art Smith og Oprah Winfrey. Ljósmynd/Oprah.com

Matreiðslumeistarinn Art Smith er sjálfsagt þekktastur fyrir að hafa verið einkakokkur Opruh Winfrey en þau hafa verið miklir vinir svo áratugum skiptir.

Art deildi því á Instagram í vikunni að hann hefði lést um ein 30 kíló í sinni sjálfskipuðu sóttkví. Þannig atvikaðist það að vinur hans var í heimsókn og á endanum dvaldi hann með fjölskyldunni meðan hún var fjarri mannabyggðum vegna kórónuveirunnar.

Fjölskylduvinurinn er rúgbíleikmaður og einkaþjálfari og úr varð að Art deildi með honum erfiðleikum sínum við að halda sér í kjörþyngd. Það varð úr að þeir ákváðu að vinna saman og var töluverð hreyfing sett í daglegt prógramm hjá þeim auk þess sem mataræðið var tekið í gegn að einhverju leyti — eða að minnsta kosti fitusneytt ögn.

Útkoman er sú að Art er einstaklega sáttur og segir að sér hafi sjaldan liðið betur líkamlega. Það má því segja að hann komi ágætlega út úr faraldrinum — heilsulega séð.

mbl.is