Staðreyndir um vín sem ekki allir vita

mbl.is/Bruce Shippee / EyeEm / Getty Images

Það er hellingur af staðreyndum sem finnst þarna úti varðandi vín og venjur í kringum það. En hvað er rétt og hvað er sannað? Hér færðu svörin hvað það varðar – skál fyrir því!

Það þarf að klára flösku sem hefur verið opnuð
Rangt! Þetta er eflaust góð afsökun hjá mörgum, að drekka heila flösku á kvöldi þegar slíkt er ekki nauðsyn. En gæðin minnka þó með hverjum deginum segja sérfræðingar. Því um leið og vínið kemst í snertingu við súrefni í flöskunni þá dalar vínið smám saman – svo því minna súrefni í flöskunni, því betra. Ef þú setur korktappann í flöskuna og geymir í ísskáp, getur þú vel drukkið vínið í þrjá til fjóra daga á eftir. Annars er fínt að hella því í ísmolabox og frysta – þá áttu alltaf til kraft í sósur og aðra rétti.

Kassavín eru ekki eins góð og í flösku
Rangt! Í dag er kassavín alveg jafn gott og flöskuvín og í sumum tilvikum jafnvel betra. En flöskur eru þó þéttari en vínpokarnir í kössunum og því er oftar meira af brennisteini í kassavínum sem getur dregið úr bragði vínsins.

Áfengisprósentan segir til um hvort vínið sé sætt eða þurrt
Satt! Samkvæmt Heidi Iren Hansen, vínstjóra við Culinary Academy í Noregi, þá getur áfengisprósentan í hvítvíni gefið vísbendingar um hvort vínið sé þurrt eða sætt. Þurrt vín er þegar gerið hefur étið upp allan sykurinn sem er að finna í þrúgusafanum. En þurr vín geta alveg verið ávaxtarík á bragðið, það snýst ekki um sykurinnihaldið. Ef þú hættir gerjuninni áður en allur sykurinn er horfinn, þá færðu örlítið sætara vín og þau vín munu ekki innihalda eins háa áfengisprósentu eins og þurr vín. Hvítvín með um það bil 8% áfengismagni, verður oft aðeins sætara en 12% hvítvín þar sem vínið verður þurrt.

Það á alltaf að umhella víni
Rangt! Það er alls ekki rétt að best sé að umhella víni yfir í karöflu. Þegar þú hellir víninu úr flöskunni, þá hleypir þú lofti í vínið sem getur haft áhrif á bragðið. Vín þarf að vera vandað til að það borgi sig að umhella því í karöflu, annars er betra að drekka það frá flöskunni. En það sakar ekkert að umhella víninu – sérstaklega ef þú átt von á gestum og langar að bera vínið fram í fallegri karöflu.

mbl.is/Pinterest
mbl.is