Svona færðu svefnherbergið til að virka stærra

Við lumum á nokkrum góðum ráðum um hvernig þú færð …
Við lumum á nokkrum góðum ráðum um hvernig þú færð svefnherbergið til að virka stærra. mbl.is/Colourbox

Ertu að berjast við fermetraskort í svefnherberginu? Við viljum umfram allt ná góðri slökun í svefnrýminu okkar og hér eru nokkur ráð um hvernig þú færð herbergið til að virka stærra.

Hífðu mublurnar upp
Ein af meginreglunum í svefnherberginu er að láta rúm, náttborð og kommóður standa frá gólfinu. Hafðu alltaf rúmið á fótum og veldu þér kommóðu og náttborð sem þú getur hengt beint á vegginn.

Búðu um rúmið
Þetta kann að hljóma eins og mamma þín sé í eyrunum á þér, en með því að búa um rúmið ertu strax búin/n að koma smá ró í rýmið. Reyndu líka að velja sængurver og rúmteppi í hreinum litum, þá ekki með of mikið af munstrum.

Notaðu skápana
Það getur verið smart að láta eina og eina flík hanga á snaga uppi á vegg, en þegar flíkurnar eru orðnar það margar, þá er það farið að fylla of mikið. Reyndu að venja þig á að setja fötin inn í skáp eða notaðu þær hirslur sem þú hefur. 

Plöntur
Grænblöðungar hreinsa loftið í þeim rýmum sem þeir búa í. Fáðu ráð í næstu blómabúð, um hvaða plöntur henta svefnherbergjum og kannski getur þú sett eina í pott sem hangir neðan úr loftinu.

Speglar
Speglar endurkasta ljósi, bæði náttúrulegri birtu og frá lömpum — og þeir stækka alltaf rýmið.

Málaðu vegg
Það er góð hugmynd að mála einn vegginn í svefnherberginu, þá kannski vegginn fyrir aftan rúmið. Svo lengi sem þú málar ekki allt herbergið í dökkum lit ættir þú að komast upp með að mála einn vegg eða setja fallegt veggfóður á vegginn án þess að minnka rýmið til muna. 

Rúmið í miðjuna
Ef möguleiki er á, skaltu miðjusetja rúmið í herberginu, því þá nær að lofta í kringum rúmið sem fær herbergið til að virka stærra.

Gardínur
Reyndu að velja ekki of þungar gardínur í herbergið – frekar gardínur sem hleypa náttúrlegri birtu inn í rýmið. Sjáðu einnig til þess að ljós eða lampar séu í báðum endum herbergisins, þú munt aldrei sjá eftir því.

Reyndu að hafa rúmið ekki klesst upp við vegg, þá …
Reyndu að hafa rúmið ekki klesst upp við vegg, þá loftar betur um og rýmið virkar stærra. mbl.is/Colourbox
mbl.is