Opnar spennandi veitingastað í Hveragerði

Í Hveragerði var nýlega opnaður veitingastaðurinn Reykr sem er staðsettur við hótelið Frost og Funa. Umhverfið er dásamlegt og víða má sjá heita gufuna stíga úr jörðu.

Þetta er alveg nýr staður. Hann heitir Reykr en það er gömul norsk-íslenska,“ segir kokkurinn Jón Aron Sigmundsson.

„Ég opnaði sjöunda maí og hef fengið slatta af hópum, en hér er opið alla daga milli sex og níu,“ segir Jón Aron. Hann segir hótelgesti einnig geta keypt sér gistingu sem fylgi þriggja rétta máltíð og hefur það mælst vel fyrir.

Þrettán ár í bransanum

Jón Aron hefur staðið vaktina í eldhúsum borgarinnar í þrettán ár. „Ég byrjaði á Þremur Frökkum, fór svo á Sjávargrillið, þaðan til Danmerkur, svo á 101, Fiskfélagið og aftur á Sjávargrillið. Síðast var ég í Matarkjallaranum og kom svo hingað,“ segir Jón Aron, en hann er kominn á heimaslóðir, alinn upp í Hveragerði.

„Ég er Hvergerðingur; flutti hingað sex ára gamall. Það eru þrjú ár síðan ég flutti úr Hveragerði. Þá var ég búinn að keyra á milli í níu ár í bæinn. Nú bý ég í Hafnarfirði og keyri hingað,“ segir hann og brosir.

Íslenskur matur í fyrirrúmi

Jón Aron segist vera mikið fyrir gamlan íslenskan mat.

„Nú er ég kominn heim í sveitina og einfaldleikann og byrjaður að leita aftur í grunninn,“ segir hann.

„Ég er til dæmis með grafna ær og ég er ekki með lambakjöt heldur kindakjöt. Svo er ég með reykta ýsu og hrefnusteik, en það er nokkuð sem fólk finnur ekki á mörgum stöðum. Ég er líka með naut og béarnaise, en Íslendingurinn er mjög hrifinn af því, og hrefnusteikin er frábær fyrir þá sem þora, en þetta er hreinasta og besta kjöt sem þú getur fengið,“ segir hann.

„Ég ætlaði auðvitað að fá hingað útlendingana, en ég tek öllum fagnandi. Undanfarin ár hafa hér borðað 98% erlendir ferðamenn,“ segir hann en þess má geta að þarna var áður annar veitingastaður sem tengdist hótelinu.

Mynta og blóðberg

Á matseðlinum eru réttir unnir úr séríslenskum hráefnum og leitar Jón Aron ekki langt yfir skammt. Skyrið er framleitt í Skyrgerðinni og tínir hann grös og kryddjurtir úti í móanum fyrir utan.

„Það er framleitt skyr hér í Hveragerði og ég nýti mér það,“ segir hann.

„Ég reyni svo að nota sem mest úr nærumhverfinu. Hér er allt morandi í myntu og garðablóðberg vex hér í hlíðinni. Graslaukinn fæ ég úr garðinum hans pabba.“

Allir vegir færir

Jón Aron segist vera bjartsýnn á framhaldið þrátt fyrir að hafa opnað nánast í miðjum kórónuveirufaraldri.

„Ef ég kem mér fram úr þessu eru mér allir vegir færir. Þetta verður ekki öllu verra héðan af. Ég var löngu búinn að ákveða að opna þennan stað. Svo er hér fullbókað á hótelinu í júlí þannig að júlí og ágúst ættu að verða góðir mánuðir,“ segir Jón Aron og segir tilvalið fyrir Íslendinga að fá sér bíltúr í Hveragerði í kvöldmat.

Jón Aron er með ýmislegt spennandi á prjónunum.

„Ég ætla að fara að elda hér í hvernum fyrir utan. Ég er að vinna með það að „fermentera“ hráefni í jörðinni því jarðhitinn er svo mikill. Ég get búið til svartan hvítlauk og gerjað nánast hvað sem er í jörðinni.“

Jón Aron Sigmundsson er aftur kominn á heimaslóðir. Hann leitar …
Jón Aron Sigmundsson er aftur kominn á heimaslóðir. Hann leitar aftur í gamla tíma og eldar al-íslenskan mat á nútímalegan máta. Ásdís Ásgeirsdóttir
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert