Svona þrífa fagmennirnir ísskápinn

Þú munt þakka sjálfum þér fyrir eftir að hafa þrifið …
Þú munt þakka sjálfum þér fyrir eftir að hafa þrifið ísskápinn - það er minna verk en við höldum. mbl.is/Colourbox

Það er auðvelt að halda ísskápnum hreinum fyrir bakteríum og öðrum sóðaskap þó að við eigum til að láta þau verk sitja á hakanum. En það tekur rétt um 20 mínútur að taka ísskápinn allan í gegn.

Mikilvægt er að taka létt þrif á hillum í ísskápnum og þurrka strax upp ef eitthvað sullast niður. En það er líka nauðsynlegt að þrífa ísskápinn vel og vandlega, sirka annan til þriðja hvern mánuð. Salmonella, myglusveppir og bakteríur eru fljótar að gera vart við sig þegar kjötsafi, mjólkurslettur og annað fær að liggja ósnert inn í ísskáp í langan tíma. En þrifin þurfa alls ekki að taka nema rétt um 20 mínútur sem við ættum að geta búið til pláss fyrir í amstri dagsins.

Númer 1: Tæmdu allar matvörur úr ísskápnum, skoðaðu dagsetningarnar og hentu því sem er runnið út. Yfir sumartímann er gott að setja matvörurnar í kælibox á meðan þú þrífur ísskápinn, en á veturna getur þú sett matinn út á svalir. Mjólkur- og kjötvörur þurfa helst að vera í kæli.

Númer 2: Slökktu á ísskápnum og þurrkaðu allt vatn sem lekur niður.

Númer 3: Taktu allar hillur, glerplötur og skúffur úr skápnum og þvoðu upp úr heitu sápuvatni. Skolaðu á eftir með hreinu vatni og þurrkaðu vel.

Númer 4: Til að koma í veg fyrir bakteríumyndun og vonda lykt, er mikilvægt að þrífa affallið sem er aftast í ísskápnum. Hér er gott að nota eyrnapinna eða pípuhreinsi til að losa um matarleifar ef einhverjar eru – því annars er hætta á að affallið stíflist.

Númer 5: Þrífðu alla kanta sem hillurnar hvíla á, ásamt gúmmílistum sem geyma alls kyns óhreinindi.

Númer 6: Þurrkaðu hurðina vel að utan og innan, og mundu eftir handfanginu því þar safnast bakteríurnar saman. Þurrkaðu líka ofan á ísskápnum (ef hann er ekki innbyggður).

Númer 7: Settu skúffur og hillur aftur inn í ísskápinn og lokaðu hurðinni. Þegar ísskápurinn er orðinn alveg þurr að innan, máttu kveikja aftur á honum. Og að lokum setur þú matvörurnar aftur inn.

mbl.is/Colourbox
mbl.is