Halda matarveislu á Laugaveginum

Í fyrsta sinn í sögunni verður sett upp hvítdúkað langborð eftir endilöngum Laugaveginum fyrir fólk að setjast við og njóta matarins. Fyrri part dagsins veður grillstemning og götumatur en um kvöldið alvöru veisla með mat frá kokkunum á Súmac, Public house og víni frá Vínstúkunni Tíu sopum.

„Okkur langað bara til að gera eitthvað skemmtilegt eftir Covid tímann sem fór illa með flesta veitingastaði og það sem við kunnum er að búa til mat og halda partí, svo við ákváðum bara að henda í eitt slíkt, í samstarfi við Sumarborgin Reykjavík tll að hvetja fólk í bæinn,“ segir Ólafur Örn Ólafsson, einn eigenda Vínstúkunnar tíu sopar og forsvarsmaður matarveislunnar sem haldin verður á Laugarveginum á morgun, 20. júní.

„Við ætlum að setja upp hvítdúkað og skreytt langborð eftir endilöngum Laugaveginum þar sem þessir þrír staðir eru. Svo verður búinn til matur í anda Súmac og Public house og vín, bjór og óáfengir drykkir í anda vínstúkunnar tíu sopa. Sem sagt, það má búast við góðum mat og stemningu eins og þessir staðir eru frægir fyrir,“ en spáð er frábæru veðri í borginni á morgun og glampandi sól. Það má því búast við að matarveislan verði sannkölluð matarhátíð með tilheyrandi stemningu og gleði.

Ólafur segir að það „sé góður fílíngur“ á Laugarveginum og miðborinni allri.

„Hér er fullt af fólki á hverjum degi og einhver stemning í loftinu, sérstaklega á góðviðrisdögum. Þetta er búinn að vera erfiður tími fyrir veitingamenn og er það ennþá fyrir marga. Og þetta er okkar leið til þess að sýna fólki, sérstaklega kannski þeim sem koma sjaldan þangað, hvað það getur verið gaman þar og hvað er margt að að finna fyrir alla."

Veislan hefst á morgun klukkan 14 og stendur til klukkan 20.

Hægt er að nálgast Facebook viðburð veislunnar HÉR.

Ólafur Örn Ólafsson.
Ólafur Örn Ólafsson. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is