Góðar og slæmar matvörur fyrir tennurnar

Matvörur fara misvel með tennurnar okkar.
Matvörur fara misvel með tennurnar okkar. mbl.is/Colourbox

Við erum alltaf að reyna að gera rétt í heilsu og almennu mataræði. Þótt ótrúlegt megi virðast eru sumar matvörur ekki nógu góðar fyrir tennurnar þótt aðrar séu frábærar. Hér fyrir neðan er samantekt á nokkrum af bæði góðum og slæmum matvörum.

  • Orkudrykkir þykja yfir höfuð ekki það besta fyrir þig og út af sýruinnihaldi drykkjanna geta þeir verið skaðlegir fyrir tennur. Ef þú drekkur orkudrykki reglulega eru meiri líkur á að tennurnar skemmist.
  • Við verðum oft andfúl eftir að hafa borðað lauk, en í raun er laukur frábær fyrir tennurnar. Efni sem finnast í lauk ráðast beint á þær bakteríur sem gera göt í tennurnar og valda tannholdsbólgum.
  • Ávaxtadjús er bæði sykraður og súr og því ekki góður fyrir tennur. Því eru áfengir kokteilar með ávaxtabragði einnig slæmir og auka hættuna á skemmdum tönnum.
  • Það er freistandi að bryðja ísmola yfir sumartímann en það er ekki endilega það besta fyrir þig. Ef þú japlar mikið á ísmolum getur það skaðað glerunginn – og ef þú ert með tönn þar sem glerungurinn er tærður verðurðu mun næmari fyrir heitum og köldum drykkjum.
  • Epli geta verið sæt og súr, en eru í raun mjög góð fyrir tennurnar. Þegar þú bítur í epli eykur það munnvatnsframleiðsluna og ræðst á bakteríurnar í munninum. Þú ættir alltaf að bíða með að bursta tennurnar í hálftíma eftir að hafa borðað epli, annars er hætta á að skemma glerunginn.
  • Þú skalt hafa tannburstann reiðubúinn eftir að hafa borðað hvítt pasta. Klístur sest á tennurnar sem erfitt er að fjarlægja – jafnvel með tungu og munnvatni. Og þar sem það situr á tönnunum er það eins og veislumatur fyrir bakteríur.
  • Góðar fréttir! Þú getur komið í veg fyrir tannskemmdir með því að borða dökkt súkkulaði sem inniheldur lítinn sykur og mikið af fjölfenóli. Að sögn vísindamanna er fjölfenól í kakói gott til að berjast við bakteríur í munni.
  • Í baráttunni gegn tannskemmdum er jógúrt eitt það besta sem þú getur borðað. Jógúrt hjálpar til við að endurbyggja glerunginn og lækkar sýrustigið í munninum. Þú verður þó að velja sykurlausa jógúrt til að áhrifin komi fram.
mbl.is