Léttist um 50 kíló á Leti-ketó mataræðinu

Ljósmynd/Instagram

Í september 2018 tók Megan Faraday ákvörðun um að breyta lífstíl sínum til hins betra. Hún segist alla ævi hafa verið of þung og það hafi haft veruleg áhrif á lífsgæði hennar. Mestu áhrifin hafi verið á andlega heilsu hennar. Hún hafði ekkert sjálfstraust og þjáðist af miklum félagskvíða.

Megan hafði prófað ýmislegt en engin stórbreyting varð á holdarfari hennar eða heilsu. Það var ekki fyrr en einn örlagaríkan dag í september að hún ákvað að nú skyldi hún standa sig. Hún segist hafa byrjað þann dag og aldrei gefist upp. Hún hafi verið tilbúin og fundið það á sér að í þetta skiptið myndi það ganga.

Hún hafði heyrt talað um ketó mataræði og lesið sér vel til um það. Hún ákvað að fara svipaða leið með því að fylgjast með hitaeiningamagni og minnka kolvetnainntökuna verulega. Til að byrja með fór hún niður í 25 grömm af kolvetnum á dag og hitaeiningamagn sem henni fannst henta sér. Hún hafi eldað ketó uppskriftir án þess að vera strangtrúuð. Í dag segist hún borða meira af kolvetnum og sé komin upp í 75-100 grömm á dag.

Megan segist ekki hafa þorað inn í líkamsræktarstöð fyrr en eftir tvo mánuði. Þá þegar var hún búin að léttast um tíu kíló með breyttu mataræði. Hún fór með vinkonu sinni til að byrja með en smám saman fór hún að fara ein líka. Hún segist fara fimm sinnum í viku að meðaltali og sé annaðhvort að lyfta lóðum eða í brennslu. Hún sé í dag í miklu betra formi en hún hafi áður verið og hún hafi í dag sjálfstraust sem hún hafði ekki áður.

Megan hefur lést um 50 kíló frá því að vegferð hennar hófst og segist enn vera að léttast en hún hafi hægt verulega á. Hún segir að það hafi verið þrennt sem hafi hjálpað sér hvað mest til að ná árangri.

Í fyrsta lagi hætti hún að fara á vigtina. Fyrst um sinn hafi hún þyngst og lést til skiptis en best sé að halda plani og vera ekki of upptekinn af vigtinni.

Í öðru lagi jók hún vatnsdrykkju og segir það öllu muna. Það skipti miklu máli að drekka nóg af vatni.

Í þriðja lagi byrjaði hún að vigta matinn sinn. Það sé lang besta aðferðin til að fylgjast með næringarinntöku.


mbl.is