Fljótlegasta leiðin til að taka til

Ljósmynd/Colourbox

Ef þú ert ein/n af þeim sem finnst fremur leiðinlegt að taka til þá er þetta klárlega málið fyrir þig. Ég man ekki hver sagði mér fyrst frá þessu en ég heyrði fyrst af þessari snjöllu hugmynd hér á landi í einhverjum útvarpsþætti að mig minnir.

Ég hef notað þetta reglulega og get því bæði gæðavottað það og mælt með af heilum hug.

„Trixið“ gengur út á að gefa hverju herbergi 10 mínútur í tiltekt. Stilla skal klukku sem hringir eftir tíu mínútur og ef þú ert ekki búin/n þarftu samt að færa þig yfir í næsta herbergi. Þannig er hægt að taka tvö til þrjú herbergi í senn og gera það án þess að drepast úr leiðindum.

Hægt er að fá alla fjölskylduna með og úthluta herbergjum og slá þessu upp í eina allsherjar keppni. Hægt er að skipta í lið og útfæra á hvern þann hátt sem ykkur dettur í hug.

Með þessu móti verður tiltektin áskorun og keppni í stað þess að vera bara leiðinlegt.

mbl.is