Nýtt handgert brennivín á markað

Ljósmynd/Aðsend

Í byrjun júlí hóf Vínbúðin sölu á nýju íslensku handgerðu brennivíni, sem ber nafnið „Þúfa". Þúfa er nýjasta afurð Brunns Distillery, sem framleiðir hið margverðlaunaða Himbrimi Gin.

„Þúfa er okkar framlag í arfleið hins íslenska brennivíns, en undanfarin ár hafa önnur íslensk eimingarhús eins og Reykjavík Distillery, Eimverk og Hálogi sett á markaðinn frábær handgerð brennivín", segir meðal annars í tilkynningu frá Brunni Distillery en þar segir jafnframt að íslenskt brennivín sé í grunninn séríslensk útgáfa af hinu skandinavíska ákavíti sem sé eimaður snaffs með kúmenbragði.

Íslenskt brennivín hafi hins vegar fremur slæmt orðspor, og vilja sumir meina að íslenskt brennivín sé ruddalegt og tengja það oft við kæstann hákarl. Markmið fyrirtækisins sé að endurheimta orðspor íslensks brennivíns og kynna það erlendis sem hágæða áfengi. Orðið „brennivín" sé gamalt orð sem bendir einfaldlega til þess að vínið sé eimað eða „brennt".

Sé verið að leita að hágæða brennivíni sem hafi mjúka áferð og vandað bragð sé Þúfa augljósi kosturinn.

Þúfa er hæg-eimað í sérsmíðuðum eimingarkatli sem notar hita frá heitu hveravatni til þess að eima og er búið til úr handtýndu kúmeni, vallhumli og reyrgresi, en reyrgresið gefur frá sér ilm sem flestir Íslendingar kannast vel við.

Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
mbl.is