Ný sending af holdanautakjötinu frá Hofsstaðaseli væntanleg

Sigurður Reynaldsson, framkvæmdastjóri Hagkaups og Bessi Freyr Vésteinsson, bóndi í …
Sigurður Reynaldsson, framkvæmdastjóri Hagkaups og Bessi Freyr Vésteinsson, bóndi í Hofsstaðaseli. Ljósmynd/Aðsend

Þau stórtíðindi bárust fyrr í sumar að von væri á íslensku holdanautakjöti af Galloway og Limosin kyni í verslanir. Um var að ræða kjöt af gripum sem Bessi Freyr Vésteinsson, bóndi í Hofsstaðaseli var búinn að rækta en aðdragandinn var langur og ljóst að áhugaverð þróun er að eiga sér stað í íslenskum landbúnaði.

Bessi segist hafa byrjað ferlið fyrir tæpum áratug síðan. „Þá fór ég að kaupa holdakýr með það að markmiði að hefja framleiðslu á holdanautakjöti. Þetta hefur tekið langan tíma enda um kynbætur að ræða þar sem við erum stöðugt að reyna að rækta upp ákjósanlega eiginleika hjá gripunum til að hámarka gæðin. Þar skipta allskyns þættir máli á borð við geðslag og annað slíkt svo dæmi séu tekin. Smám saman hefur kúnum fjölgað og nú getum við í fyrsta sinn boðið holdanautakjöt í einhverju magni og það er kannski það sem er fréttnæmt. Það hafa verið ræktuð holdanaut hér á landi í fjölda ára en alltaf í svo litlu magni að það hefur ekki verið hægt að markaðssetja það eða vera með framboð af neinu viti.“

Nú sé Bessi hins vegar komin með nógu margar kýr til að geta sérhæft sig í holdanautakjöti og hann segir að þeir séu nokkrir bændur sem séu að sérhæfa sig í þessu eldi sem þýði að innan nokkurra ára verði hægt að auka til muna bæði úrval og aðgengi. Unnið sé með Galloway og Limosin kynið en nýverið hafi verið fluttir inn fósturvísar af Angus kyni sem mun þá koma í verslanir eftir tvö til þrjú ár. Þróunin sé mikil og skemmtileg og til marks um gróskuna í íslenskum landbúnaði.

Bessi segir að eitt af lykilatriðunum hjá þeim sé sjálfbærni og því séu gripirnir aldir upp á grasi og vatni. „Við bændur viljum vera sjálfbærir og má segja að þetta sé okkar leið til að breyta grasi í góða matvöru,“ segir Bessi en næsti skammtur af kjötinu kemur í verslanir Hagkaups í dag og ef marka má viðtökurnar sem síðasta sending fékk þá er eins gott að hafa hraðar hendur til að tryggja sér úrvals nautasteik – beint úr íslenskum haga.  

Að sögn Sigurðar Reynaldssonar, framkvæmdastjóra Hagkaup hefur kjötið verið látið meyrna í þrjár vikur við bestu aðstæður og það full fitusprengt og tilbúið beint á grillið eða pönnuna. „Ég leyfi mér að fullyrða að útkoman er eitt flottasta og besta nautakjöt sem komið hefur í verslanir hér á landi,“ segir Sigurður en Ferskar kjötvörur sáu um verkun á kjötinu.  

Afurðir þessara gripa eru töluvert ólíkir því sem neytendur eru vanir. Nautgripirnir eru næstum tvöfaldir að stærð miðað við hefðbundin íslensk naut og því allar steikur stærri. Til að mynda vegur lundin 2,2 kíló.

Að sögn Sigurðar mun kjötið vera tilbúið í neytendapakkningum í öllum verslunum Hagkaups og verður hægt að velja um rib-eye, lundir, file og entrecote. Þá verða einnig gerðir sérstakir rib-eye hamborgarar fáanlegir úr kjötinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert