Fráskilin en deilir eldhúsi með fyrrverandi

Ella Cassidy deildi myndbandi á TikTok þar sem hún útskýrir …
Ella Cassidy deildi myndbandi á TikTok þar sem hún útskýrir lífið á hennar heimili - foreldrar hennar eru fráskilin en búa ennþá saman. mbl.is/Ella Cassidy

Nýverið birti Ella Cassidy myndir af því hvernig er að búa með fráskildum foreldrum sem deila eldhúsi þar sem er tvennt af öllu.

Ella Cassidy hefur búið með báðum foreldrum sínum síðustu fjögur árin, þrátt fyrir að þau séu skilin að borði og sæng. Í raun eru 15 ár síðan þau skildu en ákváðu síðan að flytja aftur saman til að auðvelda lífið með Ellu, unglingnum á heimilinu. Ella sem í dag er 17 ára, var því tveggja ára þegar foreldrar hennar skildu.

Foreldrarnir, Amy og David, búa undir sama þaki en sofa þó í sitthvoru herberginu. Þau eru með sitthvorn ísskápinn, sitthvorn ofninn og sinn skáp til að geyma leirtauið. En hvorugt er með leyfi til að nota „eldhúss“ hins.

Ella bjó til TikTok video til að sýna fylgjendum sínum hvernig lífið er á hennar heimili. En þar útskýrir hún að mamma hennar sé með tvöfaldan ísskáp, plús annan minni þar sem pabbi hennar fær afnot í einni hillu. Pabbi hennar er einnig með einn lítinn skáp fyrir eldhúsdótið sitt á meðan mamma hennar fær restina af eldhúsinu. Og eins notar pabbi hennar lítinn ofn með tímastilli – en hann á það til að sofna á meðan eitthvað er í ofninum, svo að þessi litli ofn er nóg fyrir hann.

Ella er hæstánægð með þetta fyrirkomulag og hafa foreldrar hennar hvorugt verið í öðru sambandi eftir að þau fluttu aftur saman.

mbl.is