Nýr veitingastaður opnaður í húsnæði Skelfiskmarkaðarins

Húsnæðið er einstaklega glæsilegt.
Húsnæðið er einstaklega glæsilegt. mbl/Valgarður Gíslason

Götubitinn – Reykjavík Street Food mun opna sinn fyrsta „pop up“-veitingastað í haust. Veitingastaðurinn verður á Klapparstíg 30 þar sem Skelfiskmarkaðurinn var áður til húsa. Þar munu koma fram 2-3 mismunandi söluaðilar hverju sinni og taka yfir eldhúsið og kynna nýjungar í matargerð í anda götubita (street food). Hugmyndin er þá að það yrði alltaf eitthvað nýtt og spennandi í hverri viku.

Húsnæðinu verður lítið breytt enda allt til alls og er hugmyndin að búa til fínni útgáfu af götubitastemningu án þess þó að tapa sjarmanum sem götubiti hefur upp á að bjóða. Einnig verður starfræktur pop up-bar og verða alls kyns viðburðir í gangi samhliða. Til að byrja með verður aðeins opið frá fimmtudögum til laugardags. Að auki mun Reykjavik Street Food halda reglulega viðburði í Hjartagarðinum og reyna að endurlífga þetta annars skemmtilega svæði í samstarfi við aðra rekstraraðila á svæðinu.

Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í þessu „pop up“-ævintýri eða vilja nánari upplýsingar vinsamlega hafi samband í tölvupósti – info@rvkstreetfood.is. Þetta er einstakt tækifæri fyrir matsöluaðila sem vilja prófa ný „konsept“ eða vilja prófa sig áfram í spennandi matargerð áður en farið er í miklar fjárfestingar sem fylgja því að opna sinn eigin veitingastað.

Haraldur Jónasson/Hari
mbl.is