Ofnbakað kjúklinga-tortellini með piparosta-mozzarella

Ljósmynd/Valla

Þetta er fullkominn gúrm pastaréttur sem gaman er að bjóða í miðri viku en sómir sér einnig vel í matarboði. Hann er ótrúlega fljótlegur og einfaldur og inniheldur ekki mörg hráefni. Það er engin önnur en Valla á GRGS sem á þessa uppskrift en hún segir engu skipta hvort notaðar séu lundir eða bringur.

„Það gerir mjög mikið fyrir réttinn að nota rifna ostinn með pipar frá Örnu ofan á. Bragðið verður alveg sérstaklega gott þegar piparinn bætist við. Það er hægt að flýta fyrir sér og nota pönnu sem þolir að fara í ofn en einnig má nota millistærð af eldföstu móti,“ segir Valla um uppskriftina sem þið verðið að prófa.

Ofnbakað kjúklinga-tortellini með piparosta-mozzarella

  • 250 g fyllt tortellini soðið samkvæmt leiðbeiningum
  • 1 msk. olía
  • 400 g kjúklingalundir eða bringur skornar í bita
  • 100 g ferskir sveppir í sneiðum
  • 100 g ferskt spínat
  • kjúklingakrydd eftir smekk
  • 150 g rifinn ostur með pipar frá Örnu

Piparostasósan

  • 1 Kryddostur með pipar frá Örnu
  • 1 1/2 dl vatn
  • 2 dl rjómi frá Örnu
  • 1 kjúklingateningur
  • 50 g rifinn ostur með pipar frá Örnu

Rífið kryddostinn á rifjárni og bræðið rólega með vatninu og kjúklingateningi. Bætið rjómanum og mozzarella saman við og látið malla á vægum hita.

Leiðbeiningar

1. Sjóðið pasta samkvæmt leiðbeiningum en fullsjóðið ekki alveg

2. Skerið kjúklinginn í bita og steikið hann upp úr olíunni og kryddið með kjúklingakryddi.

3. Bætið sveppum og spínati saman við og brúnið með kjúklingnum.

4. Setjið sósuna út á pönnuna og slökkvið. Ef pannan má fara í ofn getið þið sett ostinn núna yfir og beint í ofn en ef ekki þarf innihald pönnunnar að fara í eldfast mót og mozzarella-osturinn fer þá þar yfir.

5. Bakið í ofni í 15 mín. Gott er að klára síðustu mínúturnar með grillið í gangi.

Ljósmynd/Valla
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert