Flestir sýklar í eldhúsinu leynast á óvæntum stöðum

Flest hefðum við haldið að þeir staðir í eldhúsinu þar sem flestir sýklar leynast væru vaskurinn, mögulega uppþvottaburstinn eða svampurinn og svo kannski ruslafatan.

En svo er alls ekki. Samkvæmt tilraun sem framkvæmd var af sérfræðingunum á heimasíðunni Porch.com leynast sýklarnir á allt öðrum og fremur óvæntum stöðum.

Ávaxtaskálin. Ef þú ert ein/n þeirra sem skolar ávextina áður en þú setur þá í skálina skaltu hætta því strax. Ávextir eru með sínar bakteríur en með því að þvo þá og setja þá raka í skálina myndast kjöraðstæður fyrir bakteríur og samkvæmt mælingum eru 163 sinnum fleiri bakteríur í ávaxtaskál með þvegnum ávöxtum en óþvegnum. Þess í stað skaltu þvo ávextina áður en þú borðar þá og ekki mínútu fyrr.

Diskurinn í örbylgjuofninum. Nú fá eflaust margir áfall því diskurinn í örbylgjuofninum er ekki það sem þrifið er daglega – að minnsta kosti mun sjaldnar. Samkvæmt rannsókninni voru fleiri sýklar á disknum en í tannburstaglasi.

Hillurnar í ísskápnum. Haldið ykkur! Samkvæmt niðurstöðunni voru tíu sinnum fleiri bakteríur á hillunum í ísskápnum heldur en á baðherbergishurðarhúni. Þó að ísskápurinn myndi ekki beinlínis kjöraðstæður fyrir bakteríur njóta þær lífsins þar í ró og næði enda margir sem þurrka æði sjaldan úr hillunum.

Hnífaparaskúffan. Þar reyndust að meðaltali fjórum sinnum fleiri bakteríur en á klósetthandfangi (eða niðursturtunartakkanum). Það er því nauðsynlegt að taka öll hnífapörin upp úr skúffunni reglulega. Þvo þau vel því oftar en ekki liggja sömu hnífapörin neðst og gleyma svo ekki að þrífa skúffuna sjálfa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert