Trylltir snúðar með bláberja- og sítrónufyllingu sem þú átt eftir að elska!

Ljósmynd/Linda Ben

Öll elskum við snúða og hér erum við með uppskrift frá Lindu Ben sem er með bláberja- og sítrónufyllingu sem ætti að æra óstöðuga.

„Þessi uppskrift er ný útfærsla af hinum geysivinsælu mjúku kanilsnúðum sem hafa tröllriðið öllu undanfarin misseri. Snúðauppskriftin sjálf er sú sama, enda eru þeir að mínu mati allra mýkstu og bestu snúðar sem fyrir finnast, en fyllingin er allt önnur,“ segir Linda um uppskriftina sem allir ættu að prófa.

Mjúkir snúðar með bláberja- og sítrónufyllingu

 • 7 g þurrger
 • 120 ml volgt vatn
 • 120 ml volg mjólk
 • ½ dl sykur
 • 80 g brætt smjör
 • 1 tsk. salt
 • 1 egg
 • 450 g hveiti
 • 2 krukkur St. Dalfour bláberjasulta
 • 1 sítróna
 • 150 g hvítt súkkulaði
 • 400 g flórsykur

Aðferð

 1. Nákvæmt myndband af aðferðinni finnst í highligts á Instagraminu mínu Instagram.com/lindaben undir kanilsnúðar.
 2. Byrjað er á að setja volgt vatn og volga mjólk ásamt gerinu í litla skál og hrært smá til að þurrgerið blotni.
 3. Setjið sykur, smjör, salt og egg í stóra skál og hrærið saman.
 4. Bætið svo nánast öllu hveitinu út í, skiljið um það bil 50 g eftir, og hellið gerblöndunni líka ofan í stóru skálina. Hnoðið deigið saman þangað til allt hefur blandast vel. Deigið á að vera klístrað en ef það er enn þá mjög blautt setjið þá restina af hveitinu út í.
 5. Látið deigið hefast í 1 – 1 ½ klst. eða þangað til deigið hefur tvöfaldast í stærð.
 6. Þegar deigið hefur hefað sig dreifið þið svolitlu af hveiti á borðið, takið deigið úr skálinni og fletjið það út í um það bil 20×40 cm flöt.
 7. Smyrjið sultunni á deigið þannig að sultan þeki deigið, rífið börkinn af sítrónunni yfir. Skerið hvíta súkkulaðið í smá bita og dreifið þeim yfir.
 8. Rúllið svo upp deiginu frá 40 cm endanum í lengju og skerið hana svo í 12 – 15 bita.
 9. Leggið hreint viskustykki yfir formið og látið snúðana hefast í um það bil 30 mín.
 10. Stillið ofninn á 175°C og undir- og yfirhita.
 11. Setjið snúðana í ofninn og látið bakast í 35-45 mín. (tími fer eftir hversu þykkir snúðarnir eru) eða þangað til þeir eru orðnir fallega gullnir á litinn.
 12. Á meðan snúðarnir eru í ofninum er gott að útbúa glassúrinn. Setjið flórsykur í skál og kreistið sítrónuna út á (passið að steinarnir úr sítrónunni fari ekki með), blandið saman þar til glassúrinn verður þykkfljótandi. Vegna þess að sítrónur eru mis safaríkar gætuð þið þurft að kreista aðra sítrónu út í til að fá rétta áferð. Glassúrinn á að vera mjög stífur en samt þannig að það er hægt að sprauta honum/smyrja á snúðana.
 13. Setjið glassúrinn í sprautupoka með stórum hringlaga stút og sprautið honum svo yfir í því magni sem þið viljið, eða einfaldlega smyrjið honum yfir. Berið fram volga.
Ljósmynd/Linda Ben
mbl.is