Kendall Jenner er gestur í nýjasta innliti Architectual Digest og sýnir þar glæsilegt heimili sitt sem hún segist hafa eytt ári í að hanna að eigin smekk.
Útkoman er algjörlega frábær og ljóst að Jenner er mikil smekkkona sem lætur vandað efnisval og jarðartóna ráða ríkjum. Húsið er afar fallegt og útkoman mjög persónuleg og vönduð.
Jenner segir að uppáhaldsherbergið sitt í húsinu sé eldhúsið sem er virkilega fallegt. Skáparnir eru blágrænir en liturinn heitir Teal og er frá Benjamin Moore fyrir þá sem vilja mála í sama lit. Borðplöturnar eru svo úr hvítum marmara. Hún segist nota eldhúsið nánast daglega og að hún hefði ekki trúað því hvað eldhúsið geti skipt miklu máli. Á síðasta heimili sínu hafi hún aldrei eldað en í þessu eldhúsi viti hún fátt skemmtilegra enda sé hún iðin við að bjóða vinum og vandamönnum heim í mat.
Við hvetjum ykkur til að horfa á myndbandið í heild - það er að segja ef þið hafið gaman að fallegri hönnun. Sjón er sannarlega sögu ríkari hér.