Hið fullkomna sumarbústaðaráð Þórunnar

Þórunn Sigurðardóttir.
Þórunn Sigurðardóttir.

Albert Eiríks er með augun opin og tók eftir því þegar að Þórunn Sigurðardóttir deildi ráði og uppskrift sem hún segir að sé hin fullkomna leið til að marinera kjöt fyrir útilegu eða sumarbústaðaferð.

Þórunn segir rakið að kaupa niðursneiddan lambahrygg sem búið sé að frysta. Búa skal til góðan kryddlög því aldrei skyldi kaupa kryddlegið kjöt sem sé „saltað eins og fjandinn" að sögn Þórunnar.

Kryddlögurinn sé settur í krukku og tekinn með. Frosnar hryggjarsneiðarnar séu heilan sólarhring að verða verulega meyrar og góðar. Þannig megi taka þær frosnar í bílinn og hafa lögin meðferðis.

„Svo þegar kjötið fer að þiðna sé lögurinn settur í tvöldan plastpoka og hryggjarbitarnir (kótiletturnar) yfir. Bindið vel fyrir svo ekkert sullist og þannig má hafa þetta í vel 12 – 24 tíma í skottinu. En helst ekki lengur," segir Þórunn en þá sé kjötið tilbúið á grillið eða í ofn.

„Ef þið eruð með grill, þá passið að kjötið sé vel steikt í gegn. Best að grilla fyrst og hafa svo á lágum hita á grillinu í svona klukkutíma. Lambakjöt á alltaf að vera langsteikt. Og lítið saltað. Engan pækil með rotvarnarefnum. Ekkert gervikrydd og dót. Allt ekta. Fyrir 10 manns þarftu tvo hryggi niðursneidda," segir Þórunn.

Kryddlögur Þórunnar

  • Góð ólífuolía
  • hindberjasaft
  • smá portvín
  • mikið af klipptu rósmarín
  • steinselju
  • timian
  • lárviðarlauf
  • smá Wild Berry salt frá Urta.islandica
  • mulinn rósapipar
  • einiber líka og stráð yfir

Ég nota helst aldrei hvítlauk með lambakjöti, frekar eitthvað aðeins sætt. Hvítlaukurinn er fínn í kartöflusalatið sem er mjög gott með.

Með þessu er t.d. góð köld sósa frá Hamborgarafabrikkunni, smábragðbætt kartöflusaltat, og klettasalat.

Ekki láta ykkur detta í hug að bera fram lambahrygg, niðursneiddan (kótilettur) eða tala nú ekki um heilann fyrr en hann hefur verið a.m.k. 2 tíma í ofni/grilli.

Svo má salta aðeins á fituröndina um leið og þetta er borið fram og þetta er jafngott kalt daginn eftir. Vessgú!

mbl.is