Pastað sem fitness-fólkið elskar

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

Pasta er eitt það albesta sem hægt er að gæða sér á og snillingurinn sem fann upp baunapasta ætti að fá Nóbelinn – eða svo gott sem. Hér erum við að tala um kolvetnasnauða snilld sem er sprengfull af próteinum. Margur hefði haldið að baunapasta smakkaðist illa en það er kolrangt – auk þess sem áferðin minnir mjög á hefðbundið hveitipasta.

Hér er það Berglind Hreiðars á Gotteri.is sem galdrar fram rétt sem hvaða fitness-stjarna sem er myndi hiklaust láta ofan í sig.

Edamame-fettuccine

 • 1 pakki „Edamame & Mung Bean“-fettuccine frá Explore Cuisine
 • 200 g ferskt spínat
 • 50 g saxaðar pekanhnetur
 • 3 msk. grænt pestó
 • 3 msk. ólífuolía + meira til steikingar
 • parmesanostur
 • smá sítrónusafi kreistur yfir (má sleppa)
 • salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

 1. Steikið spínatið upp úr ólífuolíu, saltið og piprið og leggið til hliðar.
 2. Sjóðið fettuccine samkvæmt leiðbeiningum á pakka og ristið pekanhneturnar á meðan.
 3. Hrærið saman 3 msk. af pestó og 3 msk. af ólífuolíu og blandið saman við soðið fettuccine, pekanhnetur og spínat.
 4. Berið fram með rifnum parmesanosti.
mbl.is