Ostakakan sem sló öll met

Ljósmynd/María Gomez

Það er María Gomez á Paz.is sem á heiðurinn að þessari snilld en hún segir að sér finnist bakaðar ostakökur alltaf svo góðar – og við tökum heilshugar undir það.

„Áferðin á þannig ostakökum er alltaf öðruvísi en á þeim sem eru ekki bakaðar. Hún er meira svona þurr og þétt í sér og ekki eins sæt þegar hún er bökuð, en mér finnst báðar gerðirnar afar góðar enda mikil ostakökukona,“ segir María.

Deigið í botninn og ostakökuna er gert í sitthvoru lagi og hellt ofan á hvort annað og bakað í jafnlanga stund í sama formi Bæði deigin eru afar einföld að gera og einnig súkkulaðibráðina sem kemur ofan á.

Bökuð brownie turtle ostakaka

Brownie botn 

 • 115 g smjör 
 • 115 g suðusúkkulaði 
 • 150 g sykur 
 • 50 g púðursykur 
 • 2 egg 
 • 1 tsk vanilludropar 
 • 1/2 tsk. salt 
 • 45 g hveiti 
 • 10 g bökunarkakó (ég notaðist við Cadbury)

Ostakakan

 • 450 g Philadelphia Original rjómaostur 
 • 2 egg 
 • 115 g sykur 
 • 1 tsk. vanilludropar 

Súkkulaðibráð og ofan á 

 • 60 g suðusúkkulaði 
 • 60 g rjómi 
 • Lófafylli af pekanhnetum
 • 50 g smátt skorið suðusúkkulaði eða súkkulaðidropar 

Aðferð Brownie botn 

 1. Byrjið á að hita ofn á 180°C blástur 
 2. Bræðið súkkulaði og smjör saman í potti við miðlungsháan hita og hrærið stöðugt í á meðan svo brenni ekki
 3. Setjið svo í hrærivélarskál og kælið í 10 mín
 4. Þegar hefur kólnað í þessar 10 mín hrærið þá sykrinum öllum út í súkkulaðið með písk
 5. Bætið nú 1 eggi út í í einu og hrærið með písk áfram bara létt saman
 6. Sigtið næst hveiti og kakó út í blönduna og setið salt og vanilludropa saman við
 7. Hrærið eins lítið saman og hægt er í handþeytara eða með písk svo kakan verði ekki seig en bara rétt þannig að hráefnin blandist saman
 8. Smyrjið kringótt bökunarmót sem er 23-24 cm í þvermál og hellið deiginu ofan í 

Ostakakan

 1. Setjið ostinn í skál og hrærið hann upp með handþeytara
 2. Bætið svo sykri, eggjum og vanilludropum saman við og þeytið þar til allt er blandað saman og orðið frauðkennt og  ljóst 
 3. Hellið svo blöndunni yfir brownie blönduna og setjið í ofninn í 30 mínútur við 180°C, lækkið svo niður í 165°C og hafið í 15 mínútur í viðbót 
 4. Gott er að gera súkkulaðibráðina á meðan 15 mínútur eru eftir 

Súkkulaðibráð 

 1. Brjótið 60 g suðusúkkulaði ofan í skál 
 2. Hitið svo rjómann upp að suðu 
 3. Hellið honum svo beint út á súkkulaðið í skálinni og látið standa stutta stund 
 4. Hrærið svo vel saman með gaffli eða písk þar til það er orðið þykkt og silkimjúkt og leggjið til hliðar
 5. Skerið í pínulitla ferninga 50 g af suðusúkkulaði og brjótið pekanhneturnar smátt milli fingranna 
 6. Hellið svo súllulaðibráðinni yfir kökuna þegar hún hefur aðeins kólnað og dreifið hnetunum og smátt skorna súkkulaðinu yfir og kælið 

Punktar

Kakan er best köld og því finnst mér gott að vera búin að kæla hana í nokkrar klukkustundir áður en hún er borin fram eða jafnvel gera hana kvöldinu áður, en hún er sko ekki síðri daginn eftir.

Ljósmynd/María Gomez
mbl.is