Tvöfalt líf systkina

Systkinin Friðsemd og Daníel eiga og reka, ásamt móður þeirra, …
Systkinin Friðsemd og Daníel eiga og reka, ásamt móður þeirra, Súpufélagið í Vík í Mýrdal. Friðsemd flutti til Víkur frá Úganda og Daníel frá Svíþjóð og una þau hag sínum vel í þessu litla og samheldna bæjarfélagi. mbl.is/Ásdís

Systkinin Daníel Oliver og Kristrún Friðsemd Sveinsbörn búa og starfa í Vík í Mýrdal þar sem þau reka Súpufélagið. Daníel flutti þangað frá Stokkhólmi og Friðsemd alla leið frá Kampala í Úganda.

Súpufélagið, sem heitir á ensku The Soup Company, var opnað árið 2017. „Þá vorum við í gömlum rússneskum hergámi. Við keyrðum fyrsta sumarið á súpum í götumálum,“ segir Daníel, en hann átti hugmyndina og dró síðar móður sína, Margréti Reynisdóttur, með í ævintýrið. Seinna meir bauðst þeim stórt og gott húsnæði og reiða þau fram dýrindissúpur fyrir gesti og gangandi við góðan orðstír. 

„Svo kom systir mín inn í þetta í fyrra, en hún hafði búið í Úganda að vinna að kynheilsu kvenna. Þannig að nú erum við þrjú hér.“

Frá Stokkhólmi til Víkur

Systkinin eru alin upp í Hafnarfirði en eiga ættir að rekja til Víkur.

„Mamma er héðan. Afi og amma bjuggu hér og afi er hér enn, auk stórfjölskyldunnar. Við eyddum öllum sumrum okkar hér sem börn. Við vildum koma aftur hingað því það vantaði svona stað hér og hér er gott að búa. Ég átti ekki endilega von á því að mér myndi líða svona vel hér. Ég hef búið í miðri stórborg, Stokkhólmi, í átta ár. Það er ansi ólíkt Vík. Ég er fluttur hingað en kærastinn minn býr enn þá úti þannig að við erum í fjarbúð og ég fer reglulega út til hans,“ segir Daníel, sem margir þekkja úr tónlistarheiminum.

Daníel er enn að semja og segist mest semja popp, J-popp (japanska popptónlist) og K-popp, (kóreska popptónlist).

 „Ég er enn þá í tónlist og er með stúdíó í Stokkhólmi og er að vinna með fólki þar. Ég fer oft út og vinn þar í tónlist, og kem svo hingað og geri súpur,“ segir hann og brosir. „Ég lifi tvöföldu lífi,“ segir hann og hlær.

Ertu búinn að fórna tónlistarferli fyrir súpugerð?

„Nei, ég held ekki. Mig hefur alltaf langað til að gera tónlist en aldrei langað til að vera í fullri vinnu við að syngja hér og þar. Mér finnst skemmtilegra að vera í stúdíói og semja en að koma fram og flytja. Þetta er fínt eins og þetta er núna, þó að tónlistin mætti leika stærra hlutverk í lífinu.“ 

Eldheit súpa í brauðskál

Daníel segist lengi hafa haft áhuga á matreiðslu, og ekki síst að búa til góðar súpur. Hann fór í kokkanám fyrir allmörgum árum.

„Ég fór í grunnnám og á samning en hætti svo og fór meira út í tónlist. En mér hefur alltaf þótt gaman að elda og keypti ég mér mína fyrstu matreiðsluvél tólf ára. Mamma er líka mjög góður kokkur og þegar við stóðum bæði á tímamótum, og þurftum tilbreytingu, slógum við til. Það hefur gengið svakalega vel frá byrjun,“ segir hann.

„Í byrjun elduðum við tvo, þrjá stóra potta af súpu og lokuðum svo bara þegar allt kláraðist. Svo bauðst okkur gott húsnæði þar sem við erum núna ásamt hraunsýningunni The Icelandic Lava Show. Við erum með súpur, salöt og samlokur og svo fullt af kökum sem við bökum sjálf,“ segir Daníel.

„Vinsælust er „Red hot lava“-súpan, en hún kemur í svartri brauðskál. Þetta er hægelduð og sterk nautagúllassúpa.“

Fræðsla um blæðingar

Friðsemd hefur haft í nógu að snúast en gefur sér tíma til að setjast niður með blaðamanni.

„Líf hennar er mun áhugaverðara en mitt!“ segir Daníel brosandi, áður en hann stekkur inn í eldhús.

„Ég var í Úganda þegar mamma og Daníel stofnuðu Súpufélagið og kom því inn í þetta seinna,“ segir Friðsemd en hún sér um reksturinn og lætur móður sína og bróður um eldamennskuna.

Friðsemd og Daníel Oliver segja afar gott að búa í …
Friðsemd og Daníel Oliver segja afar gott að búa í Vík í Mýrdal. Þar galdra þau fram eðalsúpur í Súpufélaginu. mbl.is/Ásdís

Hvað varstu að gera í Úganda?

 „Ég var fyrst í Hollandi í meistaranámi í hnattrænni heilsu og gerði mastersverkefnið mitt í Úganda í litlum bæ við landamæri Rúanda og Kongó. Svo eftir að ég kláraði námið mitt fór ég aftur út og vann þá hjá hjálparsamtökunum WoMena, en þau vinna að kyn- og frjósemisheilsu með áherslu á að hjálpa konum að takast á við blæðingar. Við þetta vann ég í eitt og hálft ár og var verkefnastjóri á fræðslusviði. Við fórum mikið inn í flóttamannabúðir og skóla og fleiri staði og töluðum við konur, karla og krakka um blæðingar. Þetta er svolítið tabú þarna og nánast engin fræðsla um blæðingar,“ segir hún.

„Við kynntum konum álfabikarinn þarna, sem var þeim mjög framandi. Það er svo erfitt aðgengi að dömubindum þarna og því frábært fyrir þessar konur að nota álfabikar. Þetta var svo mikið ævintýri og svo gaman að kynnast þessum konum í flóttamannabúðum og geta að minnsta kosti létt á þessum vandamálum hjá þeim.“

Ítarlegt viðtal er við systkinin í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »