Matarmenning á Hótel Geysi

Bjarki Hilmarsson yfirmatreiðslumaður á Hótel Geysi - en hann hefur …
Bjarki Hilmarsson yfirmatreiðslumaður á Hótel Geysi - en hann hefur starfað fyrir hótelið í 27 ár. mbl.is/Hótel Geysir

Á einu fallegasta hóteli landsins er stórkostlegan veitingastað að finna. Hér nýtur þú matarins á hverasvæði sem geymir náttúruundrið Geysi.

Eins og flestir hafa tekið eftir í sumar keyra fínustu hótel landsins tilboð sem erfitt er að standast og eftir að hafa kynnst Hótel Geysi af eigin raun urðum við að vita aðeins meira um hótelið sem var opnað fyrir ári á þeim undurfagra stað Geysi í Haukadal. Hótelið er reisulegt og býr yfir miklum sjarma, þar sem saga þess er rekin allt aftur til þess tíma er Sigurður Greipsson stofnaði íþróttaskólann árið 1922 – en útveggir gamla skólans standa enn í miðju hússins sem gefur nýja hótelinu þann karakter sem einkennir staðinn í dag. Hér hanga ljósmyndir og teikningar sem hægt er að gleyma sér við að skoða og tengjast sögunni enn betur.

Á hótelinu er þjónustan framúrskarandi, maturinn er unaðslegur og umhverfið dásamlegt – hér er allt til fyrirmyndar og fagmennskan í fyrirrúmi. Og þú gleymir öllu um stund og stað á meðan skynfæri þín eru að meðtaka allt sem lagt er á borð.

Bjarki með rúgbrauðið sem bakað er í hvernum. En Bergur …
Bjarki með rúgbrauðið sem bakað er í hvernum. En Bergur frá Laug eldaði allan sinn mat í holunni. mbl.is/Hótel Geysir

Í heimsókn sem þessari gátum við ekki setið á okkur og báðum um að fá að tala við kokkinn. Við hittum yfirmatreiðslumann hótelsins, Bjarka Hilmarsson, sem hefur eldað ofan í gesti staðarins í 27 ár. Bjarki þykir afburðakokkur og fagmaður á sínu sviði – sem við getum heilshugar tekið undir eftir að hafa snætt á veitingastaðnum. Bjarki segir okkur að veitingastaðurinn taki um 650 manns í sæti, en staðurinn sé á tveimur hæðum þó að neðri hæðin sé oftast sú sem er í notkun nema margt sé um manninn. Annars eru salirnir fullkomnir til að halda stórar veislur eins og brúðkaup eða árshátíðir.

Veitingasalir hótelsins eru stórglæsilegir og rúma allt að 650 manns …
Veitingasalir hótelsins eru stórglæsilegir og rúma allt að 650 manns í sæti. mbl.is/Hótel Geysir

Þegar nýtt hótel er í byggingu hlýtur yfirkokkur staðarins að fá einhverju um það ráðið hvernig eldhúsið lítur út – eða hvað? „Jú, ég fékk alveg að ráða hvernig hönnunin átti að vera og skipulagið. Ég hafði líka áhrif á hvar niðurföll og innstungur væru, því það er mikilvægt að vinnuaðstaðan henti þeim sem nota hana og umhverfinu. Þetta var skemmtilegt verkefni að fylgja. Mér þykir hönnunin á salnum sjálfum líka mjög góð – við erum með opið eldhús sem gefur ákveðna dýpt í þetta. Það er gaman að vinna í opnu eldhúsi þar sem gestir fá innsýn í okkar vinnu og við getum fylgst með því þegar maturinn er borinn á borð. Andinn úr gamla íþróttaskólanum fylgir líka með, sem gerir veitingastaðinn sérstakan og viðmót starfsfólksins fullkomnar vinnudaginn,“ segir Bjarki. En í eldhúsinu starfa um átta til tíu manns sem skipta með sér vöktum.

Hér er allt til fyrirmyndar - þjónustan, maturinn og borðbúnaðurinn …
Hér er allt til fyrirmyndar - þjónustan, maturinn og borðbúnaðurinn er einnig augnayndi. mbl.is/Hótel Geysir

Matseðillinn á hótelinu er fjölbreyttur og því ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi. Í raun var undirrituð með mikinn valkvíða og langaði helst að fá bita af öllum þeim réttum sem í boði voru en endaði á því að velja þorsk með humarhölum og fersku salati, sem reyndist vera uppáhaldsréttur kokksins þegar síðar var spurt. „Þorskurinn hefur verið lengi hjá okkur á matseðli og selst alltaf jafn vel. En ég er líka mjög hrifinn af villibráðinni og hlakka til þegar við förum að nálgast það tímabil,“ segir Bjarki. „Við skiptum út matseðlinum tvisvar til þrisvar á ári og ég er alltaf að prófa mig áfram með ný hráefni og aðferðir. Hráefnið okkar kemur að mestu héðan úr sveitinni og því alltaf nýtt og ferskt.“

Heit súkkulaðikaka, vanilluís og fersk ber. Namm!
Heit súkkulaðikaka, vanilluís og fersk ber. Namm! mbl.is/Hótel Geysir

Það er ekki bara kvöldverðarmatseðillinn sem stendur upp úr á veitingastaðnum, því morgunmaturinn kemur þar fast á eftir og úrvalið eftir því. Bara ef allir morgnar myndu byrja á þessum nótum – þá væri lífið ljúft. Í morgunverðarhlaðborðinu má til dæmis finna hið vinsæla hverabrauð sem er bakað í mjólkurfernu og er langt frá búðarkeyptu brauði hvað bragðið varðar. „Við bökum hverabrauðið á hverjum degi yfir sumarið en sjaldnar á veturna,“ segir Bjarki okkur. „Hér er notast við gamla uppskrift sem er enn í fullu gildi, en brauðið hefur verið bakað í hvernum í yfir 100 ár. Ég hef þó ekki prófað að elda neitt annað í holunni þó að hún hafi áður þjónað slíku hlutverki – hann Bergur frá Laug eldaði víst allan sinn mat í holunni. Það tekur um 24 tíma að baka eitt brauð og gestir geta fengið að koma með og sjá hvernig ferlið fer fram. Við bjóðum upp á hverasmakk þar sem gengið er að svæðinu, ég næ í brauðið og býð upp á bita ásamt eggi, síld og snafsi,“ segir Bjarki.

Rjómalöguð humarsúpa af bestu gerð.
Rjómalöguð humarsúpa af bestu gerð. mbl.is/Hótel Geysir

Við spyrjum Bjarka að lokum hvað sé fram undan á veitingastaðnum, en villibráðartímabilið fer að detta inn og jólahlaðborðin koma þar fljótlega á eftir – en þau byrja um miðjan nóvember.

Hótel Geysir í Haukadal er reisulegt og fallegt hótel.
Hótel Geysir í Haukadal er reisulegt og fallegt hótel. mbl.is/Hótel Geysir
mbl.is
Loka