Á fimmta degi verður uppljómun

Karen Jónsdóttir hjá Kaja Organic.
Karen Jónsdóttir hjá Kaja Organic. Eggert Jóhannesson

Þú ert það sem þú borðar eru einkunnarorð Karenar Jónsdóttur eða Kaju eins og hún er alla jafna kölluð. Kaja á og rekur Kaja Organic-matvælaframleiðsluna og heildsöluna, auk þess að vera með kaffihús, Café Kaju á Akranesi. 

Kaja er mikill frumkvöðull hvað varðar lífrænar vörur og mikil baráttukona fyrir því að fólk hafi kost á því að neyta lífrænna vara, bæði með því að flytja inn lífrænar vörur og svo ekki síst með að framleiða þær sjálf. 

Tvisvar á ári býður Kaja svo upp á safahreinsun sem stendur yfir í viku og fá þátttakendur daglegan skammt af vandlega samsettum söfum sem hugsaðir eru til að hreinsa og næra líkamann eins vel og kostur er. Eingöngu er notað hágæða lífrænt hráefni.

Þeir sem hafa tekið þátt í safahreinsuninni verða flestir tryggir aðdáendur og koma aftur og aftur. „Fólk finnur mikinn mun,” segir Kaja. „Fyrstu tveir til þrír dagarnir eru erfiðir sérstaklega þegar fólk er að fara í hreinsun í fyrsta sinn en á þriðja til fimmta degi verður oft svokölluð uppljómun. Bólgur minnka og jafnvel hverfa, skapið verður léttara og svo verður bara öll líðan svo einstök. Ég fer í safahreinsun tvisvar á ári; á vorin og svo haustin og það heldur mér gangandi,” segir Kaja um safahreinsunina en slíkar hreinsanir hafa notið mikilla vinsælda og hafa sannað gildi sitt. „Í upphafi var ég ein að vesenast í þessu en í gegnum árin hef ég fengið samferðafólk sem hefur hrifist af safahreinsunni og í dag er þetta orðið að námskeiði sem haldið er tvisvar á ári. Safahreinsunin er ekki megrunarkúr heldur er horft á að hvíla líffærin og gefa þeim tækifæri á að hreinsa út og fara í smá naflaskoðun og núllstilla sig. Núllstilling auðveldar að ná tökum á breyttum lífsstíl og að gera drastískar breytingar á mataræði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert