Ólafsson gin nú komið í kjarnasölu hjá ÁTVR

Ólafsson gin hefur nú verið fært í svokallaðan kjarnasöluflokk hjá ÁTVR sem þýðir að ginið fæst í 21 Vínbúð en ekki fjórum eins og var fyrir breytinguna. Ólafsson gin kom á markað 1. mars og hefði átti að vera í svokallaðri reynslusölu hjá ÁTVR fyrstu tólf mánuðina. Eftirspurnin hefur hins vegar verið á þann veg að ginið hefur nú verið fært í þennan kjarnaflokk en Ólafsson var sjöunda söluhæsta gintegundin í verslunum ÁTVR í ágúst.


Ólafsson hefur síðustu tvo mánuði hlotið tvenn gullverðlaun í virtum alþjóðlegum bragðprófunum. Í júlí hlaut ginið gullverðlaun í stærstu gin-blindsmökkunarkeppni heims, sem fagmiðillinn Spirits Business stendur fyrir og í ágúst fékk það gullverðlaun í The International Wine and Spirit Competition (IWSC), einni elstu og virtustu vín- og áfengisbragðprófun heims.

Ólafsson heitir í höfuðið á 18. aldar skáldinu og náttúrufræðingnum Eggerti Ólafssyni og eru íslenskar jurtir og vatn í stórum hlutverkum í drykknum sem er framleiddur af Eyland Spirits ehf. en að því félagi standa íslenskir og erlendir fjárfestar. Framkvæmdastjóri er Arnar Jón Agnarsson, þekktur laxveiðileiðsögumaður og fyrrum atvinnumaður í handbolta.

mbl.is