Flaskan kostar yfir 50 þúsund krónur

Mikil eftirvænting hefur gripið um sig um heim allan sakir þess að fyrsta rósakampavínið frá Brad Pitt er komið á markað. Fjölmiðlar keppast við að segja fregnir af þessum stóratburði en einungis verða um 20 þúsund flöskur í boði.

Pitt tekur þó fyrir að hér sé um enn eitt „stjörnuvínið“ að ræða en vínið kemur frá vínekru Pitts og fyrrverandi eiginkonu hans, Angelinu Jolie, í Frakklandi þar sem þau framleiða undir merkjum Miraval. Pitt ákvað að bæta rósakampavíninu við undir nafninu Fleur de Miraval og hefur vínið verið lengi í þróun og framleiðslu.

Liturinn, sem Pitt segir einstakan, er blanda af 75% chardonnay og 25% pinot noir. Vínið er síðan geymt í þrjú ár á tunnum áður en það er sett á flöskur og er aðferðin við að búa til rósakampavínið afar flókin samkvæmt heimildum matarvefsins, sem útskýrir jafnframt að hluta til af hverju það er svona dýrt.

Útkoman er frábær að sögn Pitts, sem segist afar stoltur af víninu sem kemur í verslanir hinn 15. október og mun flaskan kosta rúmar 50 þúsund krónur.

Heimild: People

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert