Simmi Vill deilir leyndarmálum úr eldhúsinu

Sigmar Vilhjálmarsson, veitingahúsaeigandi og einnig eigandi að Mínígarðinum sem hefur …
Sigmar Vilhjálmarsson, veitingahúsaeigandi og einnig eigandi að Mínígarðinum sem hefur slegið í gegn í sumar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Athafnamaðurinn Sigmar Vilhjálmsson er alls ekki ókunnugur matargerð þar sem hann rekur veitingastaðina Barion, Barion Brugghús og Hlöllabáta. Eins opnaði hann Minigarðinn í sumar við góðar undirtektir landsmanna – en þar er hægt að reyna fyrir sér í mínigolfi með fjölskyldunni, kíkja í „happy-hour“ eftir vinnu, skreppa með vinnufélögunum í hópefli eða horfa á fótboltaleiki í beinni. Allt það besta á einum stað!

Okkur lá forvitni að vita hvað einn ástsælasti sælkeri landsins hefur að segja um matarvenjur og siði og spurðum hann spjörunum úr – því allir eiga sitt „guilty pleasure“ og hjá Simma eru það chili hnetur, kryddpylsur og lakkrís súkkulaði.

Hver er þín allra besti máltíð?
Jólamáltíðin er alltaf sú besta, ekki endilega vegna þess hvað er í matinn heldur bara stemningin sem henni fylgir. Aðdragandinn er allur dagurinn og hátíðleikinn á heimilinu og á fjölskyldumeðlimum er slíkur að það er ekki annað hægt en að finnast þetta besta máltíð ársins.

Hver er þín allra versta máltíð?
Mér finnst hnetusteikur ekki góðar, hef gert margar heiðarlegar tilraunir til þess að kunna að meta þær.

Er einhver matvara eða hráefni sem þú átt erfitt með að nota?
Kókoshnetur hafa aldrei nýst mér og mér finnst þær afskaplega ofmetnar. Finnst lyktin af þeim best í kokteilum á sundlaugarbakka og af sólarvörnum.

Hvað er þitt „guilty pleasure“?
Chilli hnetur, kryddpylsur og lakkrís súkkulaði.

Er einhver vara eða hráefni sem telst vera lúxus, en er algjörlega ofmetið að þínu mati?
Kobe beef finnst mér ofmetið. Það er svo sannarlega gott, en mér finnst það samt langt í frá besta nautakjöt sem ég kemst í.

Hvað munt þú aldrei setja inn fyrir þínar varir?
Það er nú margt, en matartengt er það ansi fátt. Mér finnst mjög mikilvægt að smakka allt og dæma aldrei án þess að prófa.

Hver myndi síðasta máltíðin þín vera?
Það fer svolítið eftir því hvenær dagsins ég kveð þennan heim. En ætli ég myndi ekki bara kveðja með kjötfarsbollum, soðnum kartöflum, smjörfeiti og kálbögglum.

Ertu með eða á móti foie gras?
Mér finnst afskaplega vont að sjá hvernig farið er með gæsirnar í neyddri matargjöf en skal þó viðurkenna að mér finnst foie gras afskaplega bragðgóður matur. Það eru vörumerki sem gefa sig út fyrir að vera „natural foie gras“ en slíka vöru er eingöngu hægt að nálgast á veturna.

Í hverju liggja stærstu matartrendin í augnablikinu?
Flóran í dag er gríðarlega fjölbreytt og það er það sem er gaman. Fingramatur, gastro og bragðsterkur matur er heitur í dag. Það sem hefur breyst gríðarlega mikið á síðustu árum er að gera matinn myndrænan, enda borðum við með augunum í gegnum samfélagsmiðla.

Ef þú mættir bara borða einn rétt restina af lífinu – hvaða réttur myndi það vera?
Kjúklingur.

Á veitingastaðnum Barion færðu mömmumat í hádeginu og aðra girnilega …
Á veitingastaðnum Barion færðu mömmumat í hádeginu og aðra girnilega rétti á kvöldin. mbl.is/Facebook_Barion Mosó
Golfbrautirnar í Minigarðinum eru ævintýralega upp byggðar. Staðurinn opnaði í …
Golfbrautirnar í Minigarðinum eru ævintýralega upp byggðar. Staðurinn opnaði í sumar að Skútuvogi 2. mbl.is/Facebook_Minigarðurinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert